Dómsmálaráðherra ekki upplýstur um vopnaburð

16.06.2017 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkislögreglustjóri upplýsti ekki ráðuneyti dómsmála um að lögreglan myndi bera vopn á almannafæri í Litahlaupinu og landsleik á Laugardalsvelli. Þetta kom fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í dag. Fulltrúi Framsóknarflokks í nefndinni segir brýnt sé að lögreglan upplýsi þing og þjóð um vopnaburð svo ekki dragi úr trausti á lögregluna. 

Mikla athygli vakti þegar vopnaðir lögreglumenn sáust á landsleik Íslands og Króatíu og í Litahlaupinu. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, óskaði eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fengi ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og fulltrúar dómsmálaráðuneytisins á sinn fund og var sá fundur í morgun.

„Ákvörðun um aukinn vopnaburð lögreglu er það stór, að ég tel hana þurfa umræðu fyrir almenningsaugum. Ég held hreinlega að ríkislögreglustjóri hafi gleymt því hvaða hughrifum vopnaðir sérsveitarmenn valda. Hjá almenningi valda þeir þeirri hugmynd að það sé aðsteðjandi ógn og hætta í loftinu,“ segir Andrés Ingi. 

Nicole Leigh Mosty, stýrði nefndarfundinum. Hún sagði í samtali við fréttastofu að það hefði verið samdóma álit nefndarmanna að lögreglan njóti trausts. Eygló Harðardóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, tekur undir það. „Það er hins vegar mjög mikilvægt að hún bregðist ekki því trausti. Þar tel ég að ríkislögreglustjóri geti litið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem ákveðna fyrirmynd varðandi upplýsingaflæði og samskipti við ráðuneytð, almenning, við okkur í þinginu og borgina. Það kom fram að dómsmálaráðherra hafði ekki verið upplýstur um breyttan viðbúnað lögreglunnar,“ segir Eygló. 

Lögreglan verður vopnuð á hátíðarhöldunum á morgun
Þá hafi komið fram að vopnaburðurinn sé tímabundinn ráðstöfun. Eygló hvetur lögregluna til að upplýsa almenning um viðbúnað við hátíðarhöldin á morgun. „Það kom fram að lögreglan, hluti lögreglunnar verður vopnaður,“ segir Eygló.

Rætt var um eftirlit með lögreglunni. „Það að það geti verið óháður utanaðkomandi aðili sem fer yfir ýmiss álitamál í störfum lögreglunnar,“ segir Andrés. Eygló segir að tekur undir þetta. „Það held ég að sé eitthvað sem er mjög brýnt að dómsmálaráðuneytið og þingið fari vel yfir,“ segir Eygló.

Nefndin óskaði eftir því við dómsmálaráðuneytið að skoða verklag um upplýsingagjöf lögreglu.