Dökka hlið internetsins og samskiptamiðla

11.01.2017 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd  -  Facebook
Hundurinn Tinna hefur ekki sést í um tvær vikur en hún týndist aðfaranótt 29. desember þegar hún slapp úr pössun. Eigendur Tinnu hafa boðið 300.000 í fundarlaun. Samfélagsmiðlar hafa logað síðan hún týndist og hefur umræðan inn á Facebook hópnum Hundasamfélagið oft verið óvægin. Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði hjá Háskóla Íslands, segir að þetta sé dæmi um hina dökku hlið samskipta á netmiðlum.

Þegar Tinna hvarf beindust öll spjót netverja að konunni sem var með hundinn í pössun. Konan var gagnrýnd fyrir að láta eigendur Tinnu ekki vita af hvarfi hennar strax. Fljótlega var konan nafngreind á Hundasamfélaginu ásamt heimilisfangi hennar, myndum af Facebook síðu hennar og garðinum hennar.

Dóttir konunnar þurfti að grípa til sinna ráða og hóf að svara spurningum fólks á Hundasamfélaginu. Hún skrifaði inn á hópinn að móðir sín þori ekki lengur út húsi, dragi ekki upp gardínur og hafi orðið vör við að fólk sé fyrir utan húsið sitt. Hún hafi óttast um líf sitt. 

Stormasöm leit

Brátt tók öldunni að lægja og eigendurnir hvöttu til stillingar. Stofnuð var ný Facebook síða þar sem haldið var utan um leitina og þar eru nú 3.500 manns sem leituðu að Tinnu í þeirri von um að hún fyndist lifandi. Lognið varði þó ekki lengi og brátt fóru á flug ásakanir um að væri verið að beina leitarhópnum viljandi á rangar brautir. Á heimasíðu Víkurfrétta kom fram að eigendur séu að vinna að snjallsímaforriti sem hjálpar hundaeigendum að leita að týndum hundum. Í viðtali við Mbl.is vísar annar eigandi Tinnu því á bug að leitin sé notuð sem auglýsingabrella fyrir forritið.

Skipulagðri leit hefur nú verið hætt en þrátt fyrir það er enn fjöldi fólks sem leitar að Tinnu. 

Neikvæð og óvægin umræða

Neikvæð umræða inn á Hundasamfélaginu, sem telur 22 þúsund manns, hefur vakið athygli og var birt aðsend grein um það á Nútímanum. Hörð og gagnrýnin viðbrögð eru við hinum ýmsu athugasemdum. Sem dæmi má nefna um hvernig eigi að viðra hundana sína, hvernig ólar eigi að nota og hversu góð ástæða sé fyrir því að gefa hunda frá sér eða þurfa að lóga þeim. Persónulegar árásir, uppnefni, hatursfull einkaskilaboð, hótanir um ofbeldi og líflátshótanir sjást iðulega á síðunni. Nú síðast í gærkvöldi gáfu stjórnendur síðunnar út beiðni til hundaeigenda að tala saman af virðingu og halda ró sinni. 

Arnar Eggert segir að svona harkaleg viðbrögð einkennist innan sérhópa á Facebook. „Neikvæðar hliðar internetsins og samskiptamiðla er að fólk er að segja hluti sem það myndi aldrei segja ef það stæði við hliðina á manneskjunni. Og þegar það er komið inn í svona sérhópa, þá myndast ákveðin stemmning innan hópsins, ákveðnar reglur og línur og ef einhver fer gegn þeim þá virðist oft verða ofsalega harkaleg viðbrögð sem leyfast ekki í raunheimum.“

Arnar segir að fjarlægðin við raunveruleikann gefi fólki meira frelsi. „Þú ert bara einn fyrir framan tölvuskjá. Mig grunar líka að fólk haldi að það geti sagt ákveðið án þess endilega að taka mikla ábyrgð á því af því maður giskar á það að maður eigi ekki eftir að hitta viðkomandi. Að því leyti er þægilegt að blammera einhverju af þvi að þér finnst þú vera stikkfrí.“

Miðalda múgsefjun á Facebook

„Annað hefur sýnt sig að Facebook er rosalega öflugur miðill fyrir það sem ég get ekki kallað annað en miðalda múgsefjun. Einhver segir eitthvað og tveimur, þremur kommentum síðar er þetta algjörlega komið úr samhengi og þetta eru bara einhverjir fimmtíu manns að rífast. Áður en þú veist af er flugvöllurinn kominn inn í umræðuna.“ segir Arnar. 

Það er þetta yndislega frelsi sem fylgir því að tjá sig á samfélagsmiðlum. Það eru engar hömlur og það ríkir algjört stjórnleysi. Það er mjög erfitt að stjórna umræðum á svona Facebook hópum sem eiga að snúast um eitthvað ákveðið málefni. Sumir setja mjög harðar samskiptareglur, þá eru stjórnendur síðunnar næstum því í fullri vinnu við það að reyna að hafa stjórn á síðunni. 

10 ár frá Lúkasarmálinu

Hundurinn Lúkas hvarf sumarið 2007 á Akureyri og var þá karlmaður sakaður um að hafa orðið hundinum að bana. Miklar ofsóknir og hatursorðræða hófust gagnvart manninum. Kertafleytingar og minningarathafnir höfðu verið haldnar um land allt. Þremur mánuðum síðar fannst Lúkas hins vegar heill á húfi. 

„Ef við tölum um Lúkasar-málið, án þess að ég geti fullyrt um eitt né neitt, þetta eru bæði svona hundamál. Það virðist vera rosalega stutt í heilagar vandlætingar og þetta virðast vera ofsaleg tilfinningamál. Þetta Lúkasar-mál, það er kallað í fræðunum siðafár eða moral panic, þar sem fólk er bókstaflega komið með hrífurnar og kindlana hjá fólki. Svona viðbrögð eiga sér rosalega mikið stað á samfélagsmiðlum, sérstaklega Facebook þar sem er þannig kerfi að það er hægt að commenta og það er umræða. Ef eitthvað er þá fer þetta bara vaxandi.“