Deiliskipulag samþykkt á Kirkjusandi

29.04.2016 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Deiliskipulag fyrir nýtt íbúðahverfi á Kirkjusandi hefur verið samþykkt í borgarráði. Skipulagið tekur til tveggja lóða, Kirkjusands 2 og Borgartúns 41. Lóðirnar verða níu í nýja deiliskipulaginu og lögð áhersla á vistvæna ferðamáta.

Áætlað er að byggja þarna 300 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis. Reykjavíkurborg mun ráðstafa 150 íbúðum og hluti af þeim verða leiguibúðir.

Íbúðirnar verða fjölbreyttar og henta jafnt stórum fjölskyldum sem einstaklingum. Einnig verður gætt að því að gott aðgengi sé fyrir fólk með skerta hreyfigetu. Gert er ráð fyrir bílastæðakjöllurum fyrir íbúa og atvinnustarfsemi. Lögð er áhersla á góða aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg og Íslandsbanki deila lóðinni á Kirkjusandi 2. Á lóðinni eru höfuðstöðvar Íslandsbanka og svokallaður strætóreitur.

Fyrirhugað var í deiliskipulaginu að Íslandsbanki væri með atvinnurekstur á staðnum áfram, en fyrr á árinu uppgötvaðist mygla í húsnæðinu. Í kjölfarið hefur Íslandsbanki flýtt sameiningu höfuðstöðva sinna í Norðurturninum í Kópavogi. 

Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka segir enn óvíst hvað verði gert með bygginguna sem stendur á lóðinni og verið sé að rannsaka hve miklar skemmdirnar eru.

Katrín Lilja Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir