Debbie flokkuð sem náttúruhamfarir

28.03.2017 - 09:55
Erlent · Hamfarir · Eyjaálfa · Veður
Fellibylurinn Debbie, sem herjar á Queensland í norðvesturhluta Ástralíu, hefur verið skilgreindur sem náttúruhamfarir. Vindhraðinn sló í 75 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Nokkuð hefur dregið úr vindhraðanum síðustu klukkustundirnar.

Tugþúsundir heimila eru án rafmagns. Enn hefur ekki verið unnt að meta tjón af völdum óveðursins. Samtök tryggingafélaga í Ástralíu áætla þó að tjónið verði meira en af fellibylnum Yasi, sem fór yfir fylkið fyrir sex árum. Þá var það metið á jafnvirði tólf hundruð milljarða króna.

Björgunarsveitir taka til starfa um leið og veður lægir við að hreinsa vegi af trjám sem hafa brotnað og fallið á vegina. Þá verður reynt að koma rafmagni á hús að nýju eins fljótt og auðið er.

Hópi verkfræðinga hjá James Cook háskóla í Queensland hefur verið falið að rannsaka hvernig hús stóðu af sér óveðrið. Þeir eiga, að sögn dagblaðsins Brisbane Times, að meta hvort ástæða sé til að breyta byggingareglugerðum í fylkinu vegna fellibylja af svipaðri stærð og Debbie.

Annar hópur á vegum háskólans á að kanna hvort viðvaranir um yfirvofandi óveður hafi borist til fólks og hvort þær hafi leitt til þess að fólk brást öðru vísi við en þau sem engar viðvaranir fengu eða ákváðu að láta þær sem vind um eyrun þjóta.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV