David Lynch hættir að gera kvikmyndir

06.05.2017 - 16:06
epa05100787 (FILE) The file picture dated 07 October 2010 shows US filmmaker David Lynch during a press conference in Goslar, Germany. David Lynch will turn 70 on 20 January 2016.  EPA/PETER STEFFEN
 Mynd: EPA
David Lynch, leikstjóri sígildra kvikmynda eins og Eraserhead, Blue Velvet og Mulholland Drive, segist hafa snúið baki við kvikmyndagerð.

Þetta kemur fram í viðtali Lynch við ástralska dagblaðið The Sydney Morning Herald.

„Hlutir hafa breyst mjög mikið,“ segir Lynch í viðtalinu og bætir við að sú tegund kvikmynda sem hafi gengið vel í miðasölu heilli hann ekki og hann hafi ekki viljað feta þá leið.

Lynch hefur ekki gert kvikmynd í meira en áratug, síðan Inland Empire kom út 2006. Hann segir að hún verði hans síðasta.

Aðdáendur hans geta huggað sig við að hann mun blása lífi í Twin Peaks síðar í þessum mánuði, þegar þriðja þáttaröðin fer í loftið eftir 25 ára hlé.