„Dave Grohl og félagar voru í banastuði“

20.06.2017 - 16:46
Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin síðastliðna helgi, fjórða árið í röð. Hátíðin í ár var stór að öllu leyti; 18 þúsund gestir, stærsta svið sem hefur verið sett upp hér á landi og heimsfrægir tónlistarmenn. Óskar Þór Arngrímsson, plötusnúður og tónlistarmaður, lagði leið sína í Laugardalinn og rýndi í tónleika og spjallaði við tónlistarmenn. Pistill hans var fluttur í Lestinni.

Óskar Þór Arngrímsson skrifar: 

Ég hóf föstudaginn á hljómsveitinni Skröttum. Það fyrsta sem hljómsveitameðlimir gerðu á sviðinu var að kveikja sér í sígarettu, fara úr að ofan áður en allt var keyrt í botn. Andrúmsloftið var svolítið eins og í dimmu eftirpartíi þar sem búið er að draga niður gluggatjöldin. Sækadelía sveif yfir draumkenndan hljóðheim þeirra drengja. Hljóðheim, sem keyrður var áfram af beinskeyttum trommuheila sem trommari sveitarinnar bakkaði upp með lötum sjarmerandi takti.  Þeir spila electro pop í hæðsta gæðaflokki.  Þeir voru öruggir á sviðinu og fönguðu mig frá fyrstu mínútu. Verst var, hvað fáir voru mættir í Laugardalinn til að sjá þessa töffara rúlla upp settinu, ekki nema von þar sem tónleikadagurinn var rétt að byrja og flestir Íslendingar enn í vinnunni.

Næstur á mínum tónleikalista var GKR. Ég hafði hlustað á 2-3 lög með honum en aldrei séð hann á tónleikum. Hann algjörlega sprengdi skalann; jákvæður, skemmtilegur, gulklæddur orkubolti sem geislaði af einlægni. Það var ekki mikið af fólki mætt þegar hann byrjaði en eftir 2 til 3 lög fór áhorfendum að fjölga og stemningin aukast. Taktarnir hentuðu hnyttnum textum hans fullkomlega og er hann mikill húmoristi á sviði. Það var gaman að sjá að hann er greinilega allra, það kristallaðist helst í öllu litla fólkinu sem sat á háhest foreldra sinna og sungu hástöfum um það að borða morgunmat.

Högni Egilsson var byrjaður að þenja rödd sína þegar ég labbaði inn á Valhöll, stærsta svið sem hefur verið sett upp á Íslandi. Honum til halds og trausts voru trommarinn Þorvaldur Þór Þorvaldsson og fiðluleikarinn Karl James Pestka. Þorvaldur er eins og galdrakarl með kjuðana og nær einhvern veginn að lyfta öllu sem hann kemur nálægt á nýtt plan, þessir tónleikar voru engin undantekning. Tónlist Högna myndi ég helst lýsa sem tilraunakenndu poppi; risastórar útsetningar sem falla vel að breiðu raddsviði tónlistarmannsins. Einnig var gaman að fylgjast með honum falla í trans þar sem líkamshreyfingar hans og tónlistin runnu saman í eitt.

Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Draumland

Ég verð að viðurkenna að ég fór ekki með miklar væntingar að sjá Richard Ashcroft og bjóst við því að hann myndi mestmegnis spila lög af nýjustu plötu sinni en ekki eldri slagarana. Hann labbaði á sviðið í glimmer jakka og ég fann að  áhyggjur mínar voru að verða að veruleika. Eftir erfitt fyrsta lag spilaði hann „Sonnet“ og áhyggjur mínar flugu út um gluggann. Bandið er skipað kempum úr ensku tónlistarsenunni og voru þeir í fantagóðu formi. Rödd Ashcrofts hljómaði jafnvel betur en hún gerði árið 1997, klárlega eitthvað Benjamin Button heilkenni þar í gangi. Epíkin náði hámarki þegar sólin braust fram og skein framan í unglingana sem kysstust að frönskum sið á meðan lagið „Song for the Lovers“ var spilað.

Vinsældir Foo Fighters á Íslandi eru miklar en það kom greinilega fram er þeir spiluðu sitt fyrsta lag. Valbjarnavöllurinn, það er að segja svæðið sem umlykur Valhallar sviðið, var hálffullt en um leið og lagið „All My Life“ byrjaði kom fólk hlaupandi að sviðinu úr öllum áttum. Dave Grohl og félagar voru í banastuði léku við hvern sinn fingur. Mér fannst ákveðin fegurð í því að horfa á miðaldra, síðhærða karla hoppa og skoppa um sviðið eins og Duracell kanínur í Zúmba tíma.

Mynd: Ásgeir Helgi.

Dave Grohl bauð meðal annars dóttur sinni upp á svið að tromma með hljómsveitinni gamla Queen smellinn; „We Will Rock You“. Einnig sagði hann frá því að hann hefði fest kaup á hálsfesti hérna á Íslandi árið 2003 og hafi hann ekki tekið hana af sér síðan. Eftir tónleika Foo Fighters  var ferðinni haldið heim. Ég horfði á eftir alls konar verum sem lögðu leið sína inn í Hel, sem er nafn hátíðarinnar á Laugardalshöllinni sem hefur verið umbreytt í eina alls herjar rave-höll. Verurnar voru í öllum stærðum og gerðum; englar, kanínur og eðlur svo eitthvað sé nefnt. Fólk lagði mikinn metnað í búninga á hátíðinni.

Laugardalshöllinni var breytt í rave-höll þar sem plötusnúðar léku listir sínar. Mynd: Solovov.

Það var ausandi rigning þegar ég kom vopnaður regnkápu á eftirmiðdegi laugardags. Það voru ekki margir mættir en þó einhverjir sem hættu sér út í vatnsveðrið. Kilo er grjótharður rappari frá Keflavík. Hann rappaði á ensku en það háði honum ekki þar sem flæði hans og orðaforði var framúrskarandi, ég var sérstaklega hrifin af tilvísunum hans í kvikmyndina Die Hard 2.  Hann hafði sterka nærveru á sviði og náði vel til þeirra hátíðagesta sem að treystu sér út í regnskúrina.

Sökum forvitni hélt ég næst að Fenri, þar var að fara á svið Malavíski hiphop tónlistarmaðurinn Tay Grin. Samkvæmt bæklingum hátíðarinnar er hann ekki aðeins rappari, heldur á hann einnig eitt stærsta farsímafyrirtækið í Malaví. Þetta varð ég að sjá. Plötusnúður hans átti í innilegu sambandi við hip hop lúðurinn sem gall ótt og títt. Ég fékk það á tilfinninguna að hann væri með vott af athyglisbrest, þar sem löginn voru aldrei lengri en 40-50 sekúndur. Seinni partur tónleikanna var síðan helgaður danskennslu en þá var hip hoppinu skipt út fyrir hefbundna afríska dans tónlist, Tay Grin kenndi nokkur spor og þau þrjátíu sem að voru eftir í tjaldinu dönsuðu eins og vindurinn. Ekki alveg minn tebolli.

XXX Rottweilerhunda þarf ekki að kynna fyrir neinum Íslending. Þeir eru sannkallaðir afar íslensku hip hop senunar, þrátt fyrir að vera enn ungir að árum. Þeir voru að spila fyrir pakkfullum Valbjarnarvelli og var stemningin svakaleg. Á sinni sautján ára göngu, hefur hljómsveitin náð meistaratökum á sviðsframkomu og fá fjöldann með sér í lið. Ef XXX Rottweilerhundar eru afar íslensku hip hop senunar þá eru Sturla Atlas barnabörn þeirra. Þeir spila hjartnæmt hip hop og búa yfir sterkri nærveru á sviðinu. Vinsældir hljómsveitarinnar eru miklar en það endurspeglaðist svo sannarlega í fjöldanum sem kom hlaupandi af Rottweiler tónleikunum. Mér fannst eins og allir í kringum mig kynnu texta laga þeirra og minntu öskrin milli laga á upptökur af gömlum bítlatónleikum. Stemningin fór stigmagnandi og náði hápunkti þegar rjóminn af íslensku hip hop senunni var saman kominn upp á sviðinu; þar á meðal Gísli Pálmi og Aron Can.

Mynd með færslu
 Mynd: Birta Rán
Aron Can í rokna stuði.

Unknown Mortal Orchestra er sækadelísk, indírokkhljómsveit. Það var greinilegt að þau skemmtu sér á sviðinu og spilagleðin leyndi sér ekki. Ruban Nielson söngvari og gítarleikari sveitarinnar hefur einstakt lag á grúví gítarlínum með risastórum húkkum. Eins og hljómsveit sem sækir áhrif sín í áttunda áratuginn sæmir þá fékk hver og einn hljóðfæraleikari svigrúm til að taka sóló. Það getur verið erfitt og stundum pínlegt en hjá Unknown mortal Orcehstra var þetta allt saman flæðandi og náttúrlegt. Trommarinn var frábær og hljóðgerflarnir settu hljóðheiminn í nýja vídd. Klárlega hápunktur hátíðarinnar.

Það má nefna að í ár var búið að skipta út þessari hefðbundnu sígarettu- eða jurtalykt sem jafnan umvefur útihátíðir. Hvert sem maður fór var að finna þykk ský með einhverskonar jarðaberjalykt. Tónleikagestir greinilega farnir að huga að heilsunni því flestir þeirra höfðu skipt út sígarettunni fyrir rafrettu. 

Anderson Paak er einn af þessum svindl köllum í lífinu. Hann kemur inn á sviðið með þvílíkum sprengikrafti. Ég fann  strax að eitthvað sérstakt væri að fara af stað. Hann var með rosalegt flæði og söng eins og engill. Bandið fylgdi eftir hverri hreyfingu hans og sjálfur var hann í góðum tengslum við áhorfendurna. Það nægði honum ekki  að taka dansspor sem sjálfur James Brown yrði eflaust stoltur af heldur kórónaði hann töffaraskapinn með því að setjast á bak við trommurnar. Þar var hann ekki að gera neitt einfalda hluti heldur trommaði hann af miklum móð einhverskonar soul/gospel takta án þess að það kæmi niður á söngnum. Mikill hæfileikamaður.

Mynd með færslu
 Mynd: Birta Rán
Góður rómur var gerður að flutningi Anderson.Paak á sunnudagskvöldinu.

Það er greinilegt hvaða tónlistarstefna er vinsælust meðal ungra íslenskra tónlistarunnenda. Þeir hip hop tónleikar sem ég sá voru oftar en ekki stútfullir af fólki, ekki bara horfandi á heldur dansandi og syngjandi með nánast öllum lögum. Það var því viðeigandi að risinn Rick Ross lyki hátíðinni. Hann er einn af stærstu tónlistarmönnum heimsins í dag, hann hefur meðal annars náð þremur plötum á toppinn í Bandaríkjunum. Hann er bófarappari af gamla skólanum og rappar aðallega um peninga, konur, byssur og bíla.  Hann var svalur á sviðinu og pepp gæjar hans voru algjörlega nauðsynlegir, taktarnir flottir og ekki sakar að áhorfendur voru í banastuði.

Mynd með færslu
 Mynd: Birta Rán
Rapparinn Rick Ross lokaði hátíðinni með stæl.

Eftir umtöluð skipulagsvandræði á Secret Solstice í fyrra var hátíðarsvæðið teiknað upp á nýtt, þau fengu meira landssvæði og hvergi mynduðust flöskuhálsar né óþarfa raðir. Tónleikagestir voru til fyrirmyndar, það er ótrúlegt að á fjögurra daga, 18.000 manna tónleikahátíð er ekki kærð ein líkamsárás né kynferðisafbrot. Það alvarlegasta sem ég hef lesið er að nokkrir blómapottar  á leikskóla í nágrenninu voru eyðilagðir, einn aðstandandi Secret Solstice sagði mér að, skaðinn yrði bættur.

Niðurstaða mín er sú að Secret Solstice er frábær hátíð og nauðsynleg íslenskri tónlistarflóru. Það er erfitt að vera annað en jákvæður, því hátíðin var stór, fjölbreytt og því nánast alltaf hægt að finna eitthvað sér við hæfi.

Óskar Þór Arngrímsson, plötusnúður og tónlistarmaður, flutti pistil sinn í Lestinni. Ljósmyndarinn Birta Rán er höfundur myndarinnar efst í færslunni. 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi