Dauðadæmdum Norðmanni sleppt í Kongó

17.05.2017 - 21:42
Skjámynd frá NRK af frétt um Joshua French
 Mynd: NRK
Norðmaðurinn Joshua French, sem dæmdur var til dauða árið 2014 í Kongó, hefur verið sleppt úr haldi og er hann kominn heim til Noregs. French var handtekinn 2009 í Kongó ásamt öðrum Norðmanni eftir að bílstjóri þeirra fannst látinn, skotinn til bana. Þeir voru sakfelldir fyrir að hafa myrt hann.

Norðmennirnir sögðu bílstjórann hafa fallið í árás glæpagengis. Hinn Norðmaðurinn, Tjostolv Moland, fannst látinn í fangaklefa sem hann deildi með French. Fyrst sögðu yfirvöld í Kongó að Moland hefði stytt sér aldur en síðar var French dæmdur fyrir að hafa myrt félaga sinn. Alexis Mwamba, dómsmálaráðherra Kongó, sagði í viðtali við norska ríkisútvarpið í febrúar að forseti Kongó hefði náðað French af tillitssemi við móður hans.