Danmörk: Varð sér og fjölskyldunni að bana

10.01.2017 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: EPA  -  Scanpix Denmark
Lögreglan á Austur-Jótlandi telur að 45 ára karlmaður hafi orðið sér, eiginkonu sinni og fjórum börnum að bana. Þau fundust látin í gær í einbýlishúsi í þorpinu Ulstrup, í grennd við Randers á Jótlandi.

Lögreglan greindi frá þessu á fréttavef sínum undir kvöld. Eiginkonan var 42 ára og börn þeirra, tveir drengir og tvær stúlkur á aldrinum þriggja til sextán ára. Lögreglunni barst tilkynning um hádegi í gær að fólkið væri látið í húsinu. Síðan þá hafa sérfræðingar hennar rannsakað vettvanginn og áverka á líkunum.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að gasleki hafi valdið því að fólkið dó. Lögreglan vísar því á bug. Enn sem komið er liggur ekkert fyrir um ástæður þess að maðurinn svipti sig og fjölskyldu sína lífi.

Tilkynning lögreglunnar á Austur-Jótlandi