Danir reyna að bjarga Postnord

23.02.2017 - 20:52
Erlent · Danmörk · Evrópa · Póstur · Svíþjóð
Fotograf Alex Tran.
PostNord Danmarks fotoarkiv.
 Mynd: Alex Tran  -  Postnord
Danskir stjórnmálamenn leggja nú nótt við dag að reyna að finna leiðir til að bjarga póstþjónustunni í landinu. Postnord, sameiginlegt fyrirtæki Dana og Svía, tapaði meir en tuttugu milljörðum íslenskra króna í fyrra. Hagnaður er í Svíþjóð en Svíar neita að borga fyrir tapreksturinn í Danmörku.

Forráðamenn danska hluta Postnord segja að botninn hafi dottið úr rekstrinum vegna þess að svo fá bréf séu send upp á gamla mátann. Samtök atvinnulífsins í Danmörku segja að þessar skýringar standist ekki. Hallareksturinn sé á starfsemi sem er í samkeppni við einkaframtak svo sem dreifingu á stykkjavöru og mat til eldri borgara.

Áhyggjur stórnmálamanna

Stjórnmálamenn hafa miklar áhyggjur og sátu á fundum fram á nótt til að reyna að finna lausn án árangurs.  Mikael Damberg, atvinnumálaráðherra Svía, hefur sagt að ekki komi til greina að sænskir skattborgarar greiði tap danska hluta Postnord. Það kemur hagfræðingum ekki á óvart. Per Nikolaj Bukh, hagfræðiprófessor við Álaborgarháskóla, hann sagði í viðtali við Danmarks Radio: ,,Það get ég vel skilið. Þegar vandræðin ná til alls fyrirtækisins og tap er á danska hlutanum þá eru það Svíar sem greiða danskan kostnað."

Þverpólitískt samkomulag um Postnord

Stjórn og stjórnarandstaða gerðu samkomulag í fyrra um danska hluta Postnord og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna segjast nú bíða eftir eftir útspili frá ríkisstjórninni segir Christian Rabjerg Madsen, talsmaður Jafnaðarmanna. Hann segist eiga von á því að samgönguráðherra láti þá sem stóðu að samkomulaginu vita fljótlega til hvaða ráða verði gripið. Henrik Brodersen frá Danska þjóðaflokknum segist andvígur hugmyndum um að póstþjónustan verði einkavædd.

Hafa fyrirgert trausti

Ljóst er stjórnmálamennirnir bera ekkert traust til stjórnenda Postnord eftir að tilkynnt var um meir en 20 milljarða íslenskra króna tap á Postnord í Danmörku í fyrra. Karsten Hønge frá Sósíalíska þjóðarflokknum er talinn hafa hitt naglann á höfuðið er hann sagði: ,,Traustið sem ég ber til stjórnenda póstsins mætti skrifa á rönd frímerkis."

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV