Dagur á stuttlista bókmenntaverðlauna ESB

Bókmenntir
 · 
Dagur Hjartarson
 · 
Síðasta ástarjátningin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Dagur á stuttlista bókmenntaverðlauna ESB

Bókmenntir
 · 
Dagur Hjartarson
 · 
Síðasta ástarjátningin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
05.04.2017 - 12:22.Davíð Kjartan Gestsson
Skáldsaga Dags Hjartarsonar Síðasta ástarjátningin er á meðal bóka á stuttlista Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins. Verðlaun­un­um er ætlað að veita ungum og upp­renn­andi rit­höf­und­un­um í Evr­ópu viður­kenn­ingu. Í tilkynningu segir að bókin festi Dag Hjartarson í sessi sem eitt af fremstu ungskáldum þjóðarinnar.

Síðasta ástarjátningin kom út vorið 2016 og er fyrsta skáldsaga Dags, en áður hafði hann sent frá sér ljóðabækur og smásagnasafn.

Þingvellir þjáningarinnar

Þetta er Reykjavíkursaga, sem fjallar um ungan mann sem flytur til borgarinnar og hefur þar háskólanám. Þar verður hann þátttakandi í óvenjulegu verkefni æskuvinar síns, róttæklings sem vinnur að mannhæðarhárri styttu af Davíð Oddsyni . Á sama tíma fellur hann fyrir ungum lögfræðinema, úr hægri kreðsum. 

„Ástin kemur úr óvæntri átt í hans lífi,“ segir Dagur, „sem gerir það að verkum að líf hans verður að tveimur flekum sem dragast frá hvor öðrum og mynda gjá – eins konar Þingvelli þjáningarinnar sem liggja í gegnum höfuð hans.“

Dagur Hjartarson var gestur Egils Helgasonar í Kiljunni 2016, þar sem hann ræddi um bókina.

Bókin var gagnrýnd í bókmenntaþættinum Kiljunni vorið 2016. „Það er margt þarna sem er mjög skemmtilegt og áhugavert,“ sagði Þorgeir Tryggvason. „Þessi tilfinning fyrir þessari heitu ást er bara falleg, innan um íroníuna, flippið og ruglið.“ Bókin er ljóðræn á köflum og var sá hluti hennar í uppáhaldi hjá Sunnu Dís Másdóttur. „Mér fannst það ganga upp,“ sagði hún. „Hann fór mjög vel með þá kafla.“

Tveir íslenskir höfundar áður hlotið verðlaunin

Bók­mennta­verðlaun Evr­ópu­sam­bands­ins (EUPL) standa þeim lönd­um opin sem eru þátt­tak­end­ur í Skap­andi Evr­ópu, sem er fjár­mögn­un­ar­áætl­un ESB vegna hinna skap­andi- og menn­ing­ar­legu greina. Vinningshafar fá 5.000 evr­ur í verðlaun og njóta þeir auk­inn­ar kynn­ing­ar og at­hygli á alþjóðleg­um vettvangi. 

Tveir íslenskir höfundar hafa áður hlotið verðlaunin. Oddný Eir Ævarsdóttir fyrir bókina Jarðnæði 2014 og Ófeigur Sigurðsson fyrir Skáldsöguna um Jón 2011.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Síðasta ástarjátning Dags Hjartarsonar

Bókmenntir

Ný íslensk skáldsaga