Dagsektir vegna ófullnægjandi verðmerkinga

08.08.2017 - 15:50
Online shopping with a credit card.
 Mynd: Daniel Foster  -  flickr.com
Neytendastofa hefur gefið vefversluninni Boxinu fyrirmæli um að gefa upp einingaverð á síðunni og heimilisfang fyrirtækisins. Verði vefverslunin ekki við kröfum Neytendastofu innan tveggja vikna, verður dagsektum beitt, 30.000 krónum á dag.

Í ákvörðun Neytendastofu segir að borist hafi ábending frá neytanda um að einingarverð væri ekki alltaf tilgreint samhliða endanlegu verði á vefsíðunni boxid.is. Þann 16. maí síðastliðinn sendi Neytendastofa bréf til fyrirtækisins þar sem athygli var vakin á því að ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og um verðmerkingu og einingarverð við sölu á vörum væru brotin. Svar barst 24. júlí og í því sagði að allar vörur væru einingarmerktar og að það heyri til undantekninga ef þær væru það ekki, það hafi mannleg mistök verið gerð.

Neytendastofa gerir einnig athugasemd við að skýrari upplýsingar vanti um heimilisfang verslunarinnar. Að mati Neytendastofu hefur ekki verið bætt úr og fær fyrirtækið tveggja vikna frest til að verða við ábendingunum, annars beri því að greiða 30.000 krónur á dag í sekt þar til brugðist hefur verið við með fullnægjandi hætti. 

Dagný Hulda Erlendsdóttir