Dagar sprengihreyfilsins taldir

13.08.2017 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Nýja vélin í Refnum
Dagar sprengihreyfilsins eru senn taldir, að mati tímaritsins Economist. Rafbílar séu einfaldari í framleiðslu en hefðbundnir bílar, skilvirkari og mengi minna.

Fyrir rúmum 120 árum kvartaði franska tímaritið Le Petit Journal, sem snara mætti sem Litla tímaritið, yfir því að manninum hafi ekki tekist að búa til vél sem stæðist lifandi hestöflum snúning. Undanfarin 120 ár hefur sprengihreyfillinn heldur betur sýnt fram á hið gagnstæða. En nú er öldin önnur. Vikuritið The Economist færir í grein sinni rök fyrir því að dagar sprengihreyfilsins séu senn taldir. Þar er því spáð að 2025 verði 14% allra nýrra bíla rafsbílar. Í dag eru þeir um 1%.

Bílar höfðu mikil og mótandi áhrif á heiminn eins og við þekkjum hann í dag. Næstum níu af hverjum tíu Bandaríkjamönnum keyra til vinnu og samanlagt afl allra bílvéla í Bandaríkjunum er tífalt meira en afl orkuvera landsins. Milljarður bíla er á götum heimsins. Í umfjöllun The Economist er bent á að rafbílar hafi valdið upplausn í bílaiðnaðnum. Þeir eru einfaldari í framleiðslu en hefðbundnir bílar og svipar meira til tölvu á hjólum en hefðbundins bíls. Rafhlöður verða sífellt öflugri og ódýrari. Þá eru færri hlutir í rafbílum sem geta bilað. Allt þetta mun leiða til lægri framleiðslukostnaðar og minni eftirspurnar eftir varahlutum. 

Ofan á þetta bætast vangaveltur tímaritsins um hvort eftirspurn eftir bílum muni dragast verulega saman með allt að 90% samdrætti í bílaiðnaði ef og þegar til þess kæmi að sjálfkeyrandi bílar taka yfir göturnar og hver bíll getur þjónustað fleiri en einn ökumann - eða farþega. Hvort sem það verður raunin segir The Economist að mun skilvirkara sé að framleiða rafmagn fyrir rafbíla í orkuveri frekar en að framleiða orku í sprengihreyflum því aðeins lítill hluti þess eldsneytis sem sprengihreyfill brennir skilar sér út í hjólin. Allt þetta mun að sögn tímaritsins skila sér í hreinna lofti, færri dauðsföllum vegna mengunar og minnkandi áhrifa olíuríkra Mið-Austurlanda á heimsmálin og boða endalok sprengihreyfilsins eins og við þekkjum hann í samgöngum á landi. 

Gunnar Dofri Ólafsson