Costco veitti ekki upplýsingar um veltu sína

14.07.2017 - 09:05
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Bandaríska verslunarkeðjan Costco veitti Rannsóknarsetri verslunarinnar ekki upplýsingar um veltu sína í júní þegar eftir því var leitað. Velta annarra dagvöruverslana dróst saman um 3,6 prósent í mánuðinum og segir rannsóknarsetrið að þetta séu úr taki við þróun síðustu ára þar sem vöxtur í veltu þeirra hefur verið nokkuð stöðugur.

Rannsóknarsetrið vekur einnig athygli á því að verð á dagvöru hafi lækkað hraðar undanfarna tvo mánuði en sést hefur um alllangt skeið. Þannig var verð á dagvöru um 3,9 prósentum lægra í júní en á sama tíma í fyrra.

Raftæki lækka líka

Verð á raftækjum, farsímum og tölvum lækkaði líka umtalsvert. Í júní var verð á svokölluðum brúnum raftækjum, sem er til dæmis sjónvarp, hljómflutningstæki og brauðrist, 19,6 prósentum lægra en í sama mánuði í fyrra. Og verð á farsímum var 14,1 prósenti lægra.  „Líklegt er að þarna gæti áhrifa frá innkomu Costco“ segir í tilkynningunni.

Velta í sölu á tölvum jókst um tæp 30 prósent miðað við sama tíma í fyrra og farsímasala jókst um 8,2 prósent. Athygli vekur að sala minni raftækja dróst hins vegar saman um 19,9 prósent.

Þá kemur einnig fram að sala áfengis hafi aukist um 7,8 prósent frá sama mánuði í fyrra. 

Fataverslun hrynur

Rannsóknarsetrið segir að velta fataverslunar á Íslandi sé varla svipur hjá sjón miðað við sölu á fötum fyrir áratug.  Hún dróst saman um rúm átján prósent miðað við sama mánuð í fyrra. 

Talið er að fataverslun hafi í auknum mæli færst til útlanda, bæði með auknum ferðalögum landsmanna en einnig vegna mikillar aukningar í netverslun með föt frá útlöndum. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV