Corbyn vill fjölga lögbundnum frídögum um 4

23.04.2017 - 04:33
epa05916828 Labour party leader Jeremy Corbyn delivers his first general election campaign speech in London, Britain, 20 April 2017. The campaign kicked off after British MPs voted almost unanimously at the parliament on 19 April 2017 to hold a snap
 Mynd: EPA
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, heitir því að fjölga almennum, lögbundnum frídögum í Bretlandi um fjóra á ári, veiti kjósendur flokknum brautargengi í kosningunum þann 8. júní næstkomandi. Frídagarnir myndu falla á þá daga sem tileinkaðir eru verndardýrlingum landanna fjögurra, sem saman mynda Stóra-Bretland.

Þannig yrði lögbundinn frídagur á degi heilags Georgs, verndardýrlings Englands; degi heilags Davíðs, verndardýrlings Wales; degi heilags Andrésar, sem ku halda verndarhendi yfir Skotum og degi heilags Patreks, sem passar upp á Norður-Íra ekki síður en granna þeirra í Írska lýðveldinu.

Í ræðu sem Corbyn mun flytja í dag, sunnudag, segir hann að með þessu vilji hann hylla þjóðmenningu hinna stoltu þjóða sem landið byggja. Hann segir mun færri lögbundna frídaga haldna í heiðri í Bretlandi en öðrum löndum sem tilheyra G20-hópnum, óformlegum samtökum 20 stærsu iðnríkja heims. Þar sé meðalfjöldi slíkra frídaga 12 á ári. Í Englandi og Wales eru þeir átta, níu í skotlandi og 10 á Norður-Írlandi.

Vefútgáfa BBC birtir útdrátt úr ræðu Corbyns. Þar segir hann þjóðirnar fjórar sem saman mynda hið mikla Bretland sjaldan hafa verið jafn sundraðar og nú, og það megi rekja til stefnu ríkisstjórnar Íhaldsflokksins. Öfugt við Theresu May, sem sái fræjum sundrungar, vilji Verkamannaflokkurinn sameina þjóðirnar fjórar. Verndardýrlingadagarnir séu liður í því.

„Þessir frídagar munu gefa verkafólki tækifæri til að verja tíma með fjölskyldum sínum, nágrönnum og vinum. En þeir munu líka verða okkur tilefni til að fagna þjóðarmenningu okkar stoltu þjóða,“ segir í ræðu Corbyns. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Íhaldsflokkurinn njóti stuðnings 40 - 50 prósenta kjósenda, en Verkamannaflokkurinn 25 - 29 prósenta.

Þess má að lokum geta að á Íslandi eru lögbundnir frídagar 16 talsins, eða 15, eftir því hvernig talið er, því tveir þeirra; aðfangadagur og gamlársdagur, eru aðeins lögbundnir frídagar frá kl. 13. Jafnvel má færa fyrir því rök að þeir séu aðeins 13, þar sem páskadagur og hvítasunnudagur falla jafnan á sunnudag, sem flokkast sem helgidagur hvort eð er. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV