Coen bræður skrifa kúrekaþætti

10.08.2017 - 08:25
Mynd með færslu
 Mynd:  -  Wikia
Coen bræður og framleiðslufyrirtækið Netflix hafa samið um samstarf við gerð nýrra sjónvarpsþátta. Þættirnir verða í anda kúrekamynda eða vestra, og sögusviðið Bandaríkin á seinnihluta 18. aldar. Þættirnir eru væntanlegir í lok árs 2018. Bræðurnir hafa unnið til fjölda verðlauna fyrir eldri verk sín en þeir starfa saman sem höfunda- og framleiðsluteymi.

Joel og Ethan Coen, betur þekktir sem Coen bræður, hafa skipað sér sess með áhrifamestu kvikmyndagerðarmönnum samtímans. Eftir þá liggja verk á borð við „Fargo“ og „No Country for Old Men“, „The Big Lebowski“ og endurgerð á Óskarsverðlaunamyndinni „True Grit“ frá árinu 1969, en endurgerð bræðranna var einnig tilnefnd til fjölda verðlauna.

Disney í streymisveitubransann

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar hjá Netflix, en fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu fyrr í vikunni þess efnis að spjallþáttastjórnandinn David Letterman myndi að snúa aftur í sviðsljósið með viðtalsþætti í sex þátta framleiðslu á vegum fyrirtækisins. Letterman settist í helgan stein í maí árið 2015 eftir langan feril í bandarísku sjónvarpi, og ættu aðdáendur hans því að fagna tíðindunum. Að auki barst tilkynning frá Disney varðandi nýja streymisveitu sem sett yrði á laggirnar undir þeirra nafni árið 2019, en Disney er stærsti framleiðandi afþreyingarefnis í heiminum. Þykir þetta óheppilegt fyrir Netflix enda mun Disney hætta að útvega þeim efni eftir að nýja streymisveitan fer í loftið.

Hörð samkeppni, dýrar framleiðslur

Samkeppnin milli streymisveita er hörð og eykst jafnt og þétt, en Netflix ásamt helstu samkeppnisaðilunum, Amazon og HBO, eyða gríðarlegum fjárhæðum í framleiðslu á eigin efni. Reglulega eru framleiðslumet slegin sem snúa að dýrustu sjónvarpsframleiðslum heims, en í augnablikinu er það búningadramað „The Crown“ sem vermir toppsætið að sinni, en framleiðslukostnaður við fyrsta þáttinn er metinn á 130 milljónir dala.

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix
Þáttaröðin The Crown er dýrasta sjónvarpsframleiðsla sögunnar, eins og er

Þættirnir eru framleiddir af Netflix og segja frá ævi Elísabetar II, en stefnt er að því að framleiða 6 seríur í heildina. Í öðru sæti kemur önnur þáttaröð frá Netflix, en leikstjórinn Baz Luhrmann fékk að reyna sig í tíu þátta frásögn af fæðingu hip-hopsins, og voru meðframleiðendur ýmsar goðsagnir úr tónlistarheiminum, meðal annara Grandmaster Flash, Kurtis Blow og Nas . Hlutu þættirnir blendnar viðtökur þrátt fyrir verðmiðann, en fyrsti þátturinn kostaði 120 milljónir dala. Athygli vekur að þriðja sætið skipa læknaþættirnir ER sem sýndir voru á RÚV um árabil, en áætlaður kostnaður við hvern þátt hljóp á 13 milljónum dala.