Christopher Nolan var fyrsta ástin

28.07.2017 - 16:08
Kvikmyndin Dunkirk í leikstjórn Christopher Nolan hefur sannarlega farið sigurför um heiminn, en gagnrýnendur keppast við að lofa hana í hástert. Myndin byggir á sannsögulegum atburðum og segir frá Dynamo verkefninu í seinni heimstyrjöldinni, þar sem 340.000 hermenn bandamanna voru frelsaðir úr klóm nasista við strandlínu Dunkirk í norðurhluta Frakklands, í byrjun sumars 1940. Hrafn Jónsson pistlahöfundur lofar myndina og segir hana marka vatnaskil á ferli Nolan.

Gagnrýnandi breska blaðsins The Guardian, Peter Bradshaw, gefur myndinni fimm stjörnur og lýsir henni sem blöndu af hamfaramynd og epískri stríðsmynd, og segir hana eiga sérstakt erindi við samtímann í ljósi Brexit málsins svokallaða. Manhola Darghis hjá The New York Times tekur í sama streng og dásamar færni Nolan við að leika sér með tímalínur. Kjetil Lismoen hjá Aftenposten segir að hér sé komið meistarastykki Nolan, og hann rómar söguna fyrir manneskjulega nálgun sem talar til áhorfandans á hátt sem ekki hefur áður sést í þessari tegund kvikmynda.

Memento kveikti áhugann

„Ég er í gegnum árin búinn að eiga í frekar flóknu sambandi við leikstjórann Christopher Nolan, hann var kannski svona fyrsta ástin mín,“ segir Hrafn Jónsson pistlahöfundur og textasmiður.
Hann segir eitt eldri verka leikstjórans, kvikmyndina Memento, hafa kveikt hjá sér löngun til að reyna sig í faginu, en Hrafn lét síðar drauminn rætast og lærði leikstjórn og handritagerð í kvikmyndaskóla í Prag. „Það var þegar ég var 16 ára í Bíóborginni sálgugu sem ég sá Memento í fyrsta skipti, og hún náði mér einhvernveginn rosalega. Maður er náttúrulega á viðkvæmum aldri líka, 16 ára, og maður er til í að opna sig fyrir einhverju og hún hitti alveg í mark."

Hrafn segir að ferill leikstjórans hafi ef til vill ekki náð að blómstra sem skyldi: „Hann hefur ekki náð að verða það sem hann átti að verða. Hann átti einhvernveginn að verða „bjargvætturinn.“ Hann kom á svipuðum tíma og leikstjórar eins og Darren Arnovski, sem líka náði aldrei að verða akkúrat það sem hann átti að verða.“ Hrafn segist hafa verið mishrifinn af verkum Nolan síðustu ár, en Dunkirk hafi staðið undir væntingum. „Er þetta ekki svolítið þannig með fyrstu ástina, væntingarnar eru svo miklar og maður gleymir aldrei fyrstu tilfinningunni. Maður verður aldrei ástfanginn eins og maður var í fyrsta skipti.“

Stórmyndir hins hugsandi manns

Hrafn telur að nýja myndin marki vatnaskil á ferli leikstjórans. „Nú finnst mér hann hafa, með Dunkirk, dálítið losað sig frá öllu þessu sem hefur haldið honum aftur. Ég held að hann hafi þjáðst af því að taka sjálfan sig dálítið alvarlega, hann er að gera stórmyndir hins hugsandi manns, en núna er hann kominn á þann stað að ég held að hann sé miklu sjálfsöruggari með frásögnina sína.“ Hann nefnir því til rökstuðnings lengd myndarinnar, en hún er ívið styttri en eldri verk Nolan. „Þetta er miklu styttri mynd heldur en hann gerir vanalega. Hann er í tveggja og hálfs tíma epísku myndunum, en þarna tekst honum að gera mjög stóra og epíska mynd sem er bara mjög naumar 100 mínútur af krafti, keyrslu og spennu.“

Mörg sjónarhorn í Dunkirk

Myndin notast við teygjanlegar tímalínur og segir Hrafn það vera meðal þess sem gefur myndnni sérstöðu.  „Það sem er sérstakt er að hún er ólínuleg. Hún er ekki í línulegri tímaröð, ekki með eina aðalpersónu. Við erum ekki að fylgja einni hetju í gegnum söguna heldur eru þetta margar litlar sögur af stórum atburði sem skarast á, og dramað kemur upp úr því, hryllingurinn kemur upp úr því, og einangrunartilfinningin kemur upp úr því. Og við fáum öll þessi sjónarhorn. Tilfinningin er ekki þessi melódramatíska tilfinning heldur eru það lítil atvik og tengingar sem búa til stærri heildarmynd og þar finnst mér hann ná þessu. Hann er nógu sjálfsöruggur til þess að vera ekki að mata okkur með of stórum tilfinningum eða of stórum pensilstrokum, heldur eru þetta svona litlu hlutirnir sem gera stóru myndina.“

Hans Zimmer endurfæddur í samstarfinu

Gagnrýnendur virðast á einu máli um að tónlistin í myndinni sé sérlega vel heppnuð. „Ég held að þetta sé 6. eða 7. myndin þar sem hann [Nolan] vinnur með þýska tónskáldinu Hans Zimmer,“ segir Hrafn. „Ég held að Hans Zimmer hafi endurfæðst í samstarfi sínu við Christopher Nolan. Zimmer var gaur sem gerði svona stórmyndatónlist, hann gerði svona rosalega yfirdrifna stórmyndamúsík. Og hann er svona búinn að finna listamanninn í sjálfum sér aftur.“

Hann segist hafa séð myndinni lýst sem tveggja tíma löngu tónlistarmyndbandi, „því hún keyri allan tímann.“ Hrafn er ósammála því. 
„Mér finnst það ýta undir myndmálið, af því að það er ekki talað mikið í myndinni. Hún er svona tilfinning og andartök, og músíkin ýtir undir það,. Einn partur af stefinu er svona tifandi klukka, það er partur af músíkinni, og maður fær á tilfinninguna að tíminn sé að renna út og það sé verið að herða að öllum allan tímann.“

Hrafn Jónsson ræddi kvikmyndina Dunkirk og leikstjórann Christopher Nolan í Síðdegisútvarpinu 27. júlí 2017.