Cervar tekinn við Króötum á ný

13.03.2017 - 10:33
epa04147527 HC Metalurg's coach Lino Cervar reacts during the EHF Champions League handball match between KIF Kolding Kobenhavn and HC Metalurg in Kolding, Denmark, 30 March 2014.  EPA/FRANK CILIUS DENMARK OUT
 Mynd:  -  EPA
Króatíska karlalandsliðið í handbolta hefur ráðið Lino Cervar sem landsliðsþjálfara á ný. Cervar stýrði Króatíu með mjög góðum árangri frá 2002-2010 en hefur stýrt Makedóníu síðan í fyrra.

Eftir að Zeljko Babic lét af störfum sem þjálfari Króatíu eftir HM í Frakklandi í janúar óskuðu forráðamenn króatíska handknattleikssambandsins eftir því að fara í viðræður við Cervar, en hann var samningsbundinn Makedóníu til ársins 2020. Handknattleikssamband Makedóníu hefur hins vegar samþykkt að rifta samningi Cervars og í kjölfarið hefur hann samið við Króatíu.

Nýr þjálfari Makedóníu á móti Íslandi í maí

Þar með er ljóst að Makedónía verður með nýjan landsliðsþjálfara þegar Ísland mætir Makedóníu í undankeppni EM 2018 4. og 7. maí. Bæði lið hafa 2 stig í undankeppninni eftir tvær umferðir, rétt eins og Tékkland og Úkraína sem eru hin liðin tvö í riðli Íslands.

Cervar var trúr sinni sannfæringu á HM í Frakklandi í janúar með að spila alltaf með sjö útileikmenn í sókn á kostnað markvarðar. Það gæti því verið spennandi að sjá hvort eftirmaður hans hjá Makedóníu haldi sig við sama leikskipulag í leikjunum við Ísland í maí, eða ekki. Borko Ristovski markmaður Barcelona var til dæmis ekki valinn í landslið Makedóníu á HM, þar sem Cervar taldi hann ekki henta í þau miklu hlaup sem leikskipulagið útheimti af markvörður liðsins. Nú er spurning hvort Ristovski komi þá aftur inn í makedónska landsliðið.

Sigursæll með Króata 2002-2010

Lino Cervar sem er 66 ára gerði Króatíu að Ólympíumeistara 2004 í Aþenu og gerði liðið sömuleiðis að heimsmeistara ári fyrr. Þá vann Króatía til silfurverðlauna undir stjórn Cervars á HM 2005 og 2009 og á EM 2008 og 2010. Hann ákvað að hætta sem landsliðsþjálfari Króatíu eftir EM 2010 og sagði ástæðuna vera að enginn sem tengdist króatíska liðinu hefði trú á honum og hann nennti ekki að vinna við þær aðstæður.

Króatía er þegar komið með keppnisrétt á Evrópumótinu í janúar 2018, því Króatar eru gestgjafar EM.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður