Byrja nýtt líf á annarri plánetu

11.05.2017 - 13:10
Í Berlín er starfrækt íslenskt tölvuleikjafyrirtæki, Klang Games, þar sem verið er að þróa leikinn Seed þar sem spilarar taka virkan þátt í mótun framvindunnar, en auk þess hafa persónur leiksins sjálfstætt líf. Guðmundur Hallgrímsson, eða Mundi vondi, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

NASA mælir með plánetunni

„Leikurinn okkar fjallar um að stofna fjölskyldu eftir að mannkynið er í raun búið að klára allt sem hægt er að klára á jörðinni og verður að byrja nýtt líf á annarri plánetu. Spilararnir eru saman á þessari plánetu og hver og einn stýrir mörgum karakterum,“ útskýrir Guðmundur. Plánetan, Trappist, er til í alvöru og er ein þeirra sem NASA telur líkur á að manneskjur geti þrifist á.

Stikla úr leiknum.

Flóknir og stórir heimar markmiðið

Guðmundur stofnaði fyrirtækið með tveimur fyrrverandi reynsluboltum frá Eve Online, Ívari Emilssyni og Oddni Snæ Magnússyni en þeir höfðu svipaða sýn þegar kom að næstu skrefum í tölvuleikjaþróun. „Það sem Eve náði að gera er að búa til heim þar sem spilarar hafa mikil áhrif. Þar er mikið flækjustig sem hefur í raun ekki svo oft tekist í leikjabransanum. Þess vegna er Eve svona frægur.“ Guðmundur segir að þar liggi einmitt framtíðin í greininni: búa til flókna heima þar sem spilarar geta haft sitt að segja um framvinduna. 

Mynd með færslu
 Mynd: Seed

Búa til raunverulegt samfélag

„Hver og einn karakter í leiknum er með heila og byggir ákvarðanir sínar á því hvort hann sé svangur eða þreyttur eða í stuði til að vinna,“ segir Guðmundur. Þeir geta einnig upplifað þjáningu, orðið þunglyndir eða alkóhólistar en auðvitað er líka í boði að lifa hamingju- og heilsusömu lífi. „Við erum að reyna að koma á endanum með heilsteypta mynd af því samfélagi sem er til í dag.“

Er auðvelt að verða háður leiknum?
„Tölvuleikir eru eins og annað. Maður er háður því að lesa góða bók eða horfa á góða seríu í sjónvarpi. Þetta hefur ákveðinn tendens að vera svipað. Á sama tíma spilar leikurinn sig sjálfur þannig að þú þarft ekki að sitja stanslaust við. Það þarf ekki að vera skaðlegt að spila hann. En það er ákveðið stigma bundið við tölvuleiki, ákveðin hræðsla sem ég held að fólk hafi alltaf haft við nýjungar. Það var hræðsla við sjónvarp, rafmagnsgítar og örugglega útvarp þar á undan.“

Guðmundur Hallgrímsson ræddi um fyrirtækið og framtíð tölvuleikja við Síðdegisútvarpið. Hlusta má á viðtalið í heild sinni að ofan. Nánari upplýsingar um Klang Games.

Klang games gáfu út leikinn ReRunners á síðasta ári.
Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi