Bygging kísilverksmiðju PCC hálfnuð

10.03.2017 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Framkvæmdir við byggingu kísilvers PCC á Bakka við Húsavík eru nú um það bil hálfnaðar. Tæplega 200 manns starfa við framkvæmdirnar sem áformað er að ljúki í desember.

Iðnaðarlóð PCC á Bakka hefur tekið miklum breytingum frá því fyrirtækið hóf þar framkvæmdir. Þýska fyrirtækið SMS er hér aðalverktaki, en þar undir er um um tugur verktaka sem sinnir ýmsum þáttum.

Segir að um helmingur verksins sé að baki 

Jörg Dembek, yfirmaður framkvæmda PCC á Bakka, segir að samtals starfi nú um 190 manns á framkvæmdasvæðinu öllu. Byggingar eru auðvitað mislangt komnar. Hráefnisgeymslan er tilbúin, þar sem geymd verða kol og trjákurl sem brennt verður til að búa til kísilmálminn. En um leið er rétt byrjað að steypa grunn sumra húsanna. „Þannig að þegar á heildina er litið þá er um helmingur verksins að baki,“ segir hann. 

Stál helsta byggingarefnið

Og sjálft verksmiðjuhúsið er smám saman að taka á sig mynd. Stálgrindahús eins og flestar byggingar á svæðinu. Stál var valið sem byggingarefni bæði með tilliti til veðurfars og jarðskjáftahættu, en verksmiðjan er reist á virku jarðskjáftasvæði. Verksmiðjuhúsið er því sérstaklega styrkt í samræmi við það.

Verksmiðjan gangsett í desember

Og þó enn sé verið að byggja er þegar farið að koma fyrir tækjabúnaði. Ofnar verksmiðjunnar eru meðal annars komnir á sinn stað. „Vinnan við uppsetninguna sýnir nú að báðir ofnarnir hafa risið. Nú þegar má því sjá hjarta verksmiðunnar,“ segir Dembek. Og hann segir verkið í heild á áætlun. „Já, verktakinn hefur tjáð okkur að allt sé á áætlun, svo að við stöndum við umsaminn dag í desember á þessu ári.“