Byggðastofnun segir fiskeldi mikla lyftistöng

17.07.2017 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar segir sjókvíaeldi við Ísland hafa verið mikla lyftistöng fyrir samfélög á Vestfjörðum og Austfjörðum sem hafa átt undir högg að sækja. Þó verði náttúran alltaf að njóta vafans og nauðsynlegt sé að taka tillit til skoðana vísindamanna um greinina.

Í nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar um fiskeldi við Ísland segir að Vestfirðir og Austfirðir þoli sjöfalt meira eldi á frjóum laxi, en þar er alfarið lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Þar áforma þrjú fiskeldisfyrirtæki stórfellt eldi. 

200 bein og óbein störf á hver 10.00 tonn

Snorri Björn Sigurðsson, forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar, segir engan vafa leika á því að sjókvíaeldi geti verið mikil lyftistöng fyrir samfélög sem hafa átt undir högg að sækja. Í Færeyjum eru til að mynda um 200 bein og afleidd störf á hver 10.000 tonn af framleiðslu. Á sunnanverðum Vestfjörðum hafi fjölmörg störf orðið til í kringum vinnsluna.
„Þetta hefur gjörbreytt samfélögunum þar, það er alveg klárt mál,” segir hann. „Ég held að það sé alveg sama sagan í sjálfu sér á Austfjörðum að þarna hafi orðið til störf sem skipta gríðarlega miklu máli og það hafa ekki verið önnur atvinnutækifæri sem þessi svæði hafa getað tekið til sín.” 

Verða að virða skoðanir vísindamanna

Afar skiptar skoðanir eru á sjókvíaeldi við Ísland og vegur þar erfðablöndun eldisfiska við íslenska fiska þyngst. Nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra skilar síðan af sér tillögum um framtíðarstefnu í sjókvíaeldi um miðjan næsta mánuð. Snorri segir nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar og leyfa náttúrunni að njóta vafans. 

„Ég held að þeir sem í greininni starfa geri sér fulla grein fyrir því að þeir geti ekki bara hundsað skoðanir vísindamanna í þeim efnum og hafa ábyggilega engan áhuga á því,” segir Snorri.