Búin að bíða í fimm ár eftir félagsíbúð

14.12.2016 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: rúv  -  rúv
Kona sem beðið hefur eftir félagslegu húsnæði í fimm ár segir óvissuna um hvað taki við vera verst. 880 eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Borgarstjóri segir vera í forgangi að leysa húsnæðisvanda þessa hóps. 

Kremena Demivera er ein þeirra en hún hefur beðið í fimm ár. Hún hefur leigt tæplega 50 fermetra íbúð á almennum markaði þar sem hún býr ásamt tveimur sonum sínum, 15 og 19 ára. Leigusamningur hennar rennur út næsta sumar og óttast hún að þau verði þá heimilislaus þar sem erfitt sé að fá leiguíbúð á almenna markaðnum á viðráðanlegu verði.
 
„Við erum að reyna spjara okkur saman, en þegar er ekki mikið af peningu, á heimilinu, mér finnst erfitt að geta ekki stutt börnin mín áfram. En við erum saman sem er það mikilvægasta fyrir mig í bili,“ segir Kremena. 

Kremena er frá Búlgaríu en hefur búið á Íslandi í 23 ár. Hún veiktist andlega fyrir nokkrum árum og þurfti að hætta vinna. Hún er öryrki í dag en fær vegna búsetuskerðingar, aðeins 67% örorkubótanna en vinnur um 30 prósenta starfshlutfall. Synir hennar vinna með skóla og sjá um að borga sitt uppihald. Hún er ekki bjartsýn á að fá íbúð, þar sem margir séu verr staddir en hún. Hún hafi fylgst með biðlistunum lengjast. 

„Ég reyni að vera bjartsýn en að missa þak yfir höfuðið fyrir krakkana sína, það er mikið álag, ég vakna með hnút í maganum og bíð hvað skeður,“ segir hún. 

Borgarstjóri segir borgina vera að vinna að húsnæðisvandanum, meðal annars með fjölbreyttri uppbyggingu íbúða. 

„Það er lítið af lausum íbúðum til sölu. Það er þess vegna sem við erum líka að byggja. Á árum áður var fyrst og fremst keypt af Félagsbústöðum tilbúnar íbúðir. Núna erum við líka að byggja í samvinnu við fjölmarga aðila sem við höfum verið að úthluta lóðum." Þannig erum við að nota allar þær aðferðir sem við höfum til þess að fjölga þessum íbúðum eins hratt og við getum,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.