Búa sig undir verstu flensutíð hingað til

12.09.2017 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Breska heilbrigðisþjónustan NHS óttast að næsti inflúensufaraldur sem mun ríða yfir í vetur verði sá versti í sögu þess. Simon Stevens, stjórnandi NHS, segir að á Bretlandseyjum sé fylgst grannt með gangi mála í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en þar er vetri núna að ljúka.

Stevens segir að útlit sé fyrir að flensutímabilið verði mjög erfitt á þessu ári. Stjórnendur í bresku heilbrigðisþjónustunni hafa verið beðnir um að hafa yfir tvö þúsund sjúkrarúm til reiðu í þeirri von að sá fjöldi dugi til. 

Óvenju slæmt flensutímabil í Ástralíu

Telegraph fjallar um málið. Þar segir að flensutímabilið í Ástralíu í vetur hafi verið það versta sem skráð hefur verið, með 98 þúsund skráðum tilfellum inflúensu. Það eru meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Þar voru einnig tvöfalt fleiri lagðir inn á sjúkrahús í vetur en í fyrravetur. Þar hófst flensutímabilið snemma og fóru aldraðir og börn yngri en fimm ára verst út úr henni.

Biðtími eftir sjúkrarúmum í Bretlandi hefur verið langur yfir vetrartímann og var með eindæmum slæmur í fyrravetur, segir í Telegraph. Breska heilbrigðisþjónustan hafi hinsvegar sloppið vel undan inflúensufaraldri í nærri áratug. Síðasti stóri faraldurinn hafi verið árið 2009. Stevens segir að næstu mánuði verði stjórnendur sjúkrahúsa landsins að tryggja sterka stöðu sjúkrahúsanna inn í veturinn. 

Bóluefnið gæti ekki dugað gegn flensunni

Breska heilbrigðisþjónustan telur að bóluefnið sem notað verður í haust eigi að geta unnið gegn flensunni. Bóluefnið sem notað var árið 2015 hafi aðeins dugað til í einu af hverjum þremur tilfellum í Bretlandi.

Telegraph segir að vísindamenn hafi áhyggjur af því að við dreifingu vírussins kunni hann að þróast þannig að þótt bóluefni virki í einu landi að þá gæti það ekki dugað til í öðru. Þó þykir of snemmt að segja til um hvort bóluefnið sem notað er núna sé nógu öflugt. 

Bregðast þurfi við í tíma

Telegraph segir að í síðasta mánuði hafi framkvæmdastjóri Bresku heilbrigðisþjónustunnar talað um að taka þyrfti sérstaklega á því að hægt yrði að taka við auknum fjölda sjúklinga á sjúkrahús. Í fyrravetur hafi þurft að bæta við 4.500 rúmum í skyndi á háannatíma. Slíkar ákvarðanir þurfi að taka tímanlega, eigi þær ekki að koma niður á sjúklingum og sjúkrahúsum og valda meiri kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið til lengri tíma.

Á vef Landlæknisembættisins hér á landi kemur fram að bóluefni gegn árlegri inflúensu sé komið til landsins.  Þar segir að bólusetning veiti allt að 60 til 70 prósent vörn gegn sjúkdómnum. „Jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur,“ segir á vef embættisins.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV