Brostinn útflutningur helsta ástæða lækkunar

31.08.2017 - 12:50
Lömb á Hrafnkelsstöðum í Fljótdal
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Lítið fæst fyrir útflutt lambakjöt og það spilar stóran þátt í því að lækka þarf verð til bænda. Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landsamtaka Sauðfjárbænda, segir að þriðjungur af íslensku lambakjöti sé fluttur út, gengið sé óhagstætt og mikilvægir markaðir hafi tapast.

Stefnir í kjötfjall eftir slátrun

„Birgðastaðan núna fyrir sláturtíðina er með nokkuð viðunandi hætti. En vandamálið snýst um þennan forsendubrest á verði í útflutningi sem þýðir að við eigum ekki kost á því að flytja kjöt sem við erum að flytja út. Það þýðir það að við sitjum uppi með birgðir núna í lok sláturtíðar og það er vandamálið sem við erum að fást við,“ segir Unnsteinn Snorri.

Norðmenn hættir að kaupa

Á Íslandi eru framleidd um 9600 tonn af lambakjöti talsvert meira neyslan er á Íslandi.  Unnsteinn segir að flytja þurfi út um þriðjung framleiðslunnar. „Og mikilvægir markaðir hafa lokast. Ég get nefnt Noregsmarkað en við höfum afsett þar um 600 tonn á ári og það hefur skilað góðum verðum. Norðmenn kaupa ekki af okkur kjöt í dag; þeir eru farnir að framleiða nóg fyrir sig sjálfa. Aðrir markaðir eru mikilvægir eins og Rússland. Þar hefur viðskiptabannið við Rússa valdið verðfalli í Evrópu og tregðu inn á þann markað. En kannski líka og ekki síst gengisþróunin. Þessi mikla styrking sem hefur verið á krónunni síðustu misserin hefur spilað stórt hlutverk í þessu og gert útflutninginn óhagstæðan,“ segir Unnsteinn.

Allir verði að flytja út til að tryggja jafnvægi innanlands

Hann óttast að lágt verð fyrir útflutning valdi harðari samkeppni um að selja kjötið á innanlandsmarkaði og það skapi þrýsting á lægri verð. Því hafi verið lagt til að útflutningsskyldu verði komið á til að allir sláturleyfishafar beri sömu ábyrgð á útflutningi. Slíkt yrði aðeins tímabundin aðgerð til að ná jafnvægi á markaðnum.

Tækfæri þrátt fyrir erfiða stöðu

Hann bendir á að þrátt fyrir ástandið séu til vel borgandi markaðir fyrir íslenskt lambakjöt. „Þar sjáum við náttúrulega okkar framtíðartækifæri líka. Við ætlum að leggja áherslu á markaði sem leita eftir sérstöðu, hreinleika og gæðum og eru þar af leiðandi tilbúnir til að borga betra verð. Og þar eigum við sannarlega möguleika,“ segir Unnsteinn. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV