Breytir ekki miklu fyrir bankana

13.03.2017 - 08:12
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir það fagnaðarefni að fjármagnshöft verði afnumin. Hún segir að reglugerðarbreytingarnar sem taka gildi á miðnætti muni ekki hafa mikil áhrif á starfsumhverfi bankanna.

„Það snertir bankana fyrst og fremst með tilliti til lausafjárstöðu þeirra. Bankarnir hafa verulega borð fyrir báru í lausafjárstöðu sinni þannig að ég veit að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þeir fari niður fyrir þau mörk sem þeim eru sett við lausaféð. Ég get bara sagt að það er fagnaðarefni að þetta skref skuli hafa verið stigið í gær,“ sagði Unnur í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1. 

Unnur telur ekki að afnám hafta hafi áhrif á starfsumhverfi íslensku bankanna. „Ég sé ekki að þetta sem slíkt muni breyta því neitt.“