Breyta lögum til að Akihito keisari geti hætt

19.05.2017 - 04:07
Erlent · Asía · Japan
epa05450746 Japan's Emperor Akihito delivers a speech during the opening ceremony of the 191st extraordinary Diet session in Tokyo, Japan, 01 August 2016. According to reports in mid-July, Akihito planned to abdicate after 27 years on the throne. The
 Mynd: epa
Ríkisstjórn Shinzos Abe afgreiddi í dag, föstudag, lagafrumvarp sem hefur þann eina tilgang að leyfa Akihito Japanskeisara að afsala sér keisaratigninni og hleypa krónprinsinum Naruhito að í hans stað. Frumvarpið tekur aðeins til þessa eina afsals og gerir ekki ráð fyrir að atburðurinn endurtaki sig. Frumvarpið fer nú inn í japanska þingið til meðferðar og samþykktar.

Enginn Japanskeisari hefur afsalað sér tigninni í tvö árhundruð, síðan Kokaku gerði það árið 1817, þá 46 ára. Akihito er 83 ára og tilkynnti óvænt um það í fyrrasumar að hann hefði ekki hug á því að sitja á keisarastóli til dauðadags eins og venja er. Hann sagðist vera orðinn gamall og slæmur til heilsunnar sem ylli því að hann ætti erfitt með að sinna keisaralegum skyldum sínum eins og hann best vildi.

Að japönskum lögum var þetta hins vegar pólitískur ómöguleiki; þau gerðu einfaldlega ekki ráð fyrir þessu, enda höfðu allir keisarar í Japan nútímans setið út ævina. Verði hið nýja frumvarp að lögum getur Akihito um frjálst höfuð strokið á ævikvöldinu en þó er ekki gert ráð fyrir því að hann hætti formlega fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2018.

Akihito hefur verið keisari síðan faðir hans, Hirohito, féll frá árið 1989. Hann nýtur vinsælda og japanska þjóðin var steini lostin þegar hann færði henni tíðindin í fyrra.