Brexit hefst 29. mars

20.03.2017 - 12:12
Erlent · Brexit · Evrópa
epa05363794 Britain's Home Secretary Theresa May arrives outside No. 10 Downing Street for a cabinet meeting in London, Britain, 14 June 2016. The cabinet meeting is due to be the last meeting of ministers before the EU referendum in which Britons
Theresa May.  Mynd: EPA
Formlegt ferli úrsagnar úr Evrópusambandinu, Brexit, hefst 29. mars, þegar Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, virkjar 50. grein Lissabon-sáttamála sambandsins.

Talsmaður breska forsætisráðherrans greindi frá þessu í morgun og sagði að Tim Barrow, erindreki Bretlands í Brussel, hefði tilkynnt Evrópusambandinu þetta.

Haft var eftir talsmanni Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að þar á bæ væri allt til reiðu til að hefja viðræður við Breta. Beðið væri eftir bréfinu frá Lundúnum.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði á samskiptamiðlinum Twitter að innan tveggja sólarhringa eftir að Bretar virkjuðu úrsagnarákvæðið myndi hann greina aðildarríkjum sambandsins frá þeim viðmiðunareglum sem stuðst yrði við í viðræðum við ráðamenn í Lundúnum. 

Ekki er er búist við að formlegar viðræður hefjist fyrr en sex eða átta vikum eftir virkjun ákvæðisins. Leiðtogar ESB ríkja verða fyrst að koma saman til að samþykkja þær reglur sem stuðst yrði við í viðræðunum og er ekki búist við að sá fundur verði fyrr en í maí. 

Stuttu seinna mun framkvæmdastjórn ESB gefa út formleg tilmæli um að hefja viðræður, sem aðildarrikin 27 sem eftir eru munu svo samþykkja og veita þannig Michel Barnier, aðalsamningamanni sambandsins, formlegt umboð til viðræðna við Breta.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV