Boða fund vegna eitraðra hollenskra eggja

11.08.2017 - 09:30
epa06123050 Eggs being destroyed at a poultry farm in Onstwedde, the Netherlands, 03 August 2017. The eggs are being destroyed on the order of the Dutch Food and Welfare Authority (NVWA) after it was discovered they contain toxic levels of the pesticide
Eggjum eytt á búgarði í Hollandi, samkvæmt fyrirskipun heilbrigðisyfirvalda.  Mynd: EPA  -  ANP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að kalla saman neyðarfund ráðherra nokkurra aðildarríkja til þess að ræða stöðuna sem upp er komin vegna hollenskra eggja sem menguð eru af skordýraeitri. Þau hafa verið seld til að minnsta kosti átta aðildarríkja sambandsins. Reynt verður að stöðva ásakanir sem ganga á víxl milli Hollands, Belgíu og Þýskalands um það hver beri ábyrgð á eggjahneykslinu.

Tveir handteknir

Skordýraeitrið fipronil hefur fundist í eggjum hjá eggjaframleiðendum og í stórmörkuðum. Það er notað til þess að drepa lýs, flær og aðra óværu á hænsnum en er bannað að nota á kjúklinga og aðra fugla sem ætlaðir eru til manneldis. Tveir framkvæmdastjórar hollensks fyrirtækis hafa verið handteknir.

Rannsakað hér á landi

Matvælastofnun kannar hvort innfluttar eggjaafurðir á Íslandi innihaldi fípronil. Stofnunin segir að lítil hætta sé hér talin á mengun. Öll heil egg sem hér eru til sölu séu íslensk en unnar eggjaafurðir, svo sem gerilsneyddar eggjarauður, eggjahvítur og eggjaduft séu fluttar til landsins. Þær eru frá Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Þýskalandi.

Dóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður neytendaverndar hjá Matvælastofnun, segir að fengist hafi upplýsingar um að ekkert af þeim eggjum sem notuð hafi verið í framleiðslu eggjaafurðanna hér sé frá þeim eggjaframleiðendum sem hafa notað eitrið fipronil.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV