Boða bætta innviði með virkjun í Hvalá

23.06.2017 - 17:42
Árneshreppur , Höfnin, bryggja, bátar, bátur, smábátur, vestfirðir, Strandir.
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Íbúar Árneshrepps hafa lengi barist fyrir bættum innviðum, samgöngum og fjarskiptum. Forsvarsmenn Hvalárvirkjunar boða úrbætur og hyggjast meðal annars koma að hafnarframkvæmdum og ljósleiðaravæðingu í hreppnum verði af virkjuninni.

Umdeild virkjun

Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum er í virkjunarflokki rammaáætlunar. Vesturverk og HS orka hyggjast reisa þar 55 Megavatta vatnaaflsvirkjun. Skipulagsstofnun segir virkjunina koma til með að hafa neikvæð áhrif á ósnortin víðerni og forsvarsmenn Landverndar hafa lagst hart gegn henni. Forsvarsmenn virkjunarinnar segja hins vegar að með henni muni raforkuöryggi á Vestfjörðum og innviðir í Árneshreppi koma til með að batna til muna.

Koma að innviðauppbyggingu

Árneshreppur er einn fámennasti hreppur landsins og íbúar hafa lengi barist fyrir bættum innviðum. Forsvarsmenn VesturVerks hafa sent hreppsnefnd bréf um aðkomu fyrirtækisins að úrbótum. „Rafmagn, ljósleiðari, lagfæringar á hafnarsvæðinu, hitaveita. Það eru svona ýmis atriði sem við höfum hugsað okkur að koma að þegar að framkvæmdinni verður,“ segir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks. Hann segir það alþekkt meðal virkjunaraðila, Landsvirkjunar og annarra, að þau komi að samfélagsverkefnum í sveitarfélögum, styrkja þannig byggð og mannlíf í hreppnum.

Nýr afhendingarstaður í Ísafjarðardjúpi

Samgöngubæturnar eru vegur norður úr Árneshreppi að Hvalárvirkjun og þaðan suður yfir Ófeigsfjarðarheiði niður í Ísafjarðardjúp. Gunnar Gaukur segir að bætur á veginum sem liggur norður í Árneshrepp séu ekki á þeirra borði, þótt þar séu vegbætur einnig fyrirhugaðar. Vegurinn um Ófeigsfjarðarheiði á að liggja meðfram jarðstreng sem á að flytja rafmagn úr virkjuninni að nýjum afhendingarstað rafmagns í Ísafjarðardjúpi en nýr afhendingarstaður er forsenda þess að virkjunin geti staðið undir kostnaði við að tengjast flutningskerfi Landsnets. Gunnar Gaukur segir að nýr afhendingarstaður sé mikilvægt skref til að hringtengja rafmagn á Vestfjörðum og tryggja raforkuöryggi Vestfjarða enn frekar. Landvernd hefur hins vegar hafnað því alfarið að fjármunum almennings sé varið í nýtt tengivirki, því ætti frekar að verja til annarrar uppbyggingar eins og til að stofna þjóðgarð á Ströndum.

Málþing um fyrirhuguð virkjunaráhrif

Ekki er samstaða meðal hreppsnefndar né íbúa í Árneshreppi um áformin og á morgun hefst málþing í Trékyllisvík þar sem forsvarmenn sveitarfélagsins, framkvæmdaraðila og Landverndar eru meðal þátttakenda.

Fréttin hefur verið uppfærð