Birta gögn um uppreist æru frá 1995

13.09.2017 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Gögn er varða mál allra sem fengið hafa uppreist æru frá 1995 verða birt á vef dómsmálaráðuneytisins, með takmörkunum þó.  Ekki verða birtar upplýsingar sem varða heilsufar umsækjenda. 

Fréttastofa RÚV fékk í gær afhent gögn sem varða uppreist æru Roberts Downeys í samræmi við úrskurð Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en dómsmálaráðuneytið hafði neitað að afhenda gögnin. Gögnin sýna að Downey lagði inn umsókn um uppreist æru til forseta og innanríkisráðuneytis í september 2014. Á þeim tíma heyrði ráðuneyti dómsmála undir forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vegna rannsóknar lekamálsins. Ólöf Nordal tók við innanríkisráðuneytinu og málefnum dómsmála í desember sama ár. 

Fékk undanþágu frá meginreglu

Robert sótti um að fá undanþágu frá þeirri meginreglu að fimm ár skuli liðin frá því refsingu lýkur þar til uppreist æru fæst veitt. Refsing telst ekki að fullu úttekin fyrr en eftir að reynslulausn, samfélagsþjónustu eða vistun á Vernd er lokið. Þegar sérstaklega stendur á má veita uppreist æru tveimur árum eftir fullnustu refsingar. Ekki kemur fram í umsókn Roberts hverjar þær sérstöku ástæður eru, en miðað við það að Robert lauk reynslulausn í febrúar 2013 er ljóst að slík undanþága var veitt, en hann fékk uppreist æru í september 2016.

Misræmi í umsókn Roberts 

Athygli vekur að í umsókn Roberts, sem hann sendir inn haustið 2014, segist hann hafa lokið afplánun 2. febrúar 2012, og því séu liðin rúm tvö og hálft ár frá því afplánun lauk. Ekki fylgir með staðfesting Fangelsismálastofnunar á fullnustu refsingar. Robert sendir ítrekun á beiðni sinni tæpum tveimur árum síðar. Þá segist hann hafa fengið reynslulausn 2. febrúar 2011, og reynslutíminn hafi verið tvö ár. Þetta er staðfest með bréfi Fangelsimálastofnunar. Þetta þýðir að fullnusta refsingar Roberts var í febrúar 2013, ekki 2012, eins og hann hélt fram í umsókn sinni. Einungis eitt og hálft ár var því liðið frá því refsingu lauk þar til umsókn barst ráðuneytinu í september 2014. Til þess að fá undanþágu frá meginreglu þurfa í það minnsta tvö ár hafa liðið þar til hægt er að óska eftir uppreisn æru. Samkvæmt lista dómsmálaráðuneytisins yfir veitingu og synjun um uppreist æru hefur mönnum verið synjað þar sem ekki voru liðin tvö ár frá fullnustu refsingar.

Birta gögn allra frá 1995  

Úrskurðir Úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru endanlegir og fordæmisgefandi. Af því leiðir að ráðuneytinu verður skylt að veita sambærilegar upplýsingar um aðra sem hlotið hafa uppreist æru og meðmælendur þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er nú unnið að því að taka saman gögn er varða mál allra þeirra sem fengið hafa uppreist æru frá árinu 1995. Gögnin verða birt á vef dómsmálaráðuneytisins, með þeim takmörkunum sem fram koma í úrskurði nefndarinnar og í lögum, eins fljótt og unnt er. 32 hafa fengið uppreist æru frá árinu 1995.