Biður deilendur um að stilla sig

12.08.2017 - 12:19
epa05889104 (FILE) - A combo picture made available on 10 February 2017 (reissued 05 April 2017) shows (L) US President Donald J. Trump during Attorney General Jeff Sessions' swear-in ceremony at the White House in Washington, DC, USA, 09 February
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína.  Mynd: EPA
Forseti Kína hefur beðið leiðtoga Norður-Kóreu og Bandaríkjanna um að stilla sig eftir stóryrtar yfirlýsinga beggja á síðustu dögum.

Xi Jinping lét þessi orð falla í símtali við Donald Trump í morgun. Utanríkisráðuneyti Kína segir að í símtalinu hafi Xi lagt áherslu á að leiðtogar beggja ríkjanna yrðu að tóna niður yfirlýsingar sínar og forðast orðanotkun sem aukið gæti á spennu á Kóreuskaganum. 

Donald Trump sagði í fyrradag að Bandaríkin myndu láta rigna eldi og brennisteini yfir Norður-Kóreu ef stjórnvöld þar í landi héldu áfram að ógna Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. Norðurkóresk stjórnvöld sögðust í vikunni vera að undirbúa eldflaugaárás á eyjuna Guam í Kyrrahafi, suður af Norður-Kóreu.

Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands segir að orðaskiptin séu áhyggjuefni og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, telur að hótanir á báða bóga séu röng nálgun á lausn vandans.

Hvíta húsið hefur staðfest að forsetar Kína og Bandaríkjanna hafi rætt saman í síma og segir þá vera sammála um að Norður-Kórea verði að láta af ögrandi hegðun sinni.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV