Biðla til fanga fyrir hönd Thomasar

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, hélt fund í fangelsinu á Hólmsheiði nýlega. Þar var biðlað til annarra fanga að sýna Thomasi Møller Olsen, sem ákærður hefur verið fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, virðingu. Þetta var gert vegna yfirlýsinga fanga um að þeir ætluðu að ganga í skrokk á honum eins og bar nokkuð á meðan á rannsókn málsins stóð. Afstaða lagði áherslu á að ekki mætti koma öðruvísi fram við Thomas en aðra fanga.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar er rætt við Guðmund Inga Þóroddsson, formann Afstöðu. Hann segir að fundurinn hafi verið haldinn til öryggis en að svona mál leysist yfirleitt af sjálfu sér. Guðmundur segir að allir fangar þurfi að umgangast fólk að einhverju ráði, svo sem þegar það kaupir inn og sinnir öðrum erindum. „Þú hittir alltaf eitthvað af fólki. Fangelsið er lítið samfélag og menn þurfa að búa saman.“

Að því er fram kemur í Fréttablaðinu var tekið dæmi á fundinum af öðrum manni sem ákærður hefur verið fyrir morð. Hann sé hluti af hópnum og sæti sömu framkomu og aðrir fangar.

Thomas hefur lýst sig saklausan af ákærunni um morðið á Birnu Brjánsdóttur, sem og þeim hluta ákærunnar sem snýr að stórfelldu fíkniefnasmygli. Hann er ákærður fyrir að hafa ráðist að Birnu í rauðum Kia Rio bíl nálægt flotkvínni í Hafnarfjarðarhöfn laugardaginn 14. janúar, slegið hana ítrekað, tekið kverkataki og hert kröftuglega að hálsi Birnu. Samkvæmt ákæru varpaði hann Birnu í sjó eða vatn þar sem hún drukknaði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV