Beint flug til Akureyrar í fyrsta sinn

17.07.2017 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Stocksnap
Boðið verður upp á beint flug frá Bretlandi til Akureyrar næsta vetur, í fyrsta sinn. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, telur að þetta sé stórt skref í þá átt að koma á föstu áætlunarflugi frá Bretlandi til Akureyrar.

Það er breska ferðaskrifstofan Super Break sem býður upp á ferðirnar sem allar verða í janúar og febrúar á næsta ári. Flogið verður alls átta sinnum frá mismunandi flugvöllum víðsvegar um Bretland. Samtals verður pláss fyrir 1500 farþega í ferðunum, en ef vel gengur kemur til greina að fjölga ferðunum í tólf.

„Svona leiguflug ýtir undir möguleikann okkar til að ná beinu áætlunarflugi í framtíðinni. Ef þetta gengur vel eru þetta skýr skilaboð um að Norðurland sé áhugaverður áfangastaður og að það séu markaðstækifæri í flugi til Norðurlands,“ segir Arnheiður hjá Markaðsstofu Norðurlands. Hún er himinlifandi með framtakið og bjartsýn á að vel gangi að selja í ferðirnar.

„Þetta er líka gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, að fá svona hóp inn á þessum árstíma. Við erum að fá á milli fjögur til sex þúsund gistinætur út úr svona stórum hóp. Það eru 100-150 milljónir, gæti maður áætlað,“ segir Arnheiður.

Lögð verður sérstök áhersla á norðurljósaskoðun í ferðunum. Í tilkynningu segir að ferðirnar séu viðbrögð við vaxandi eftirspurn eftir ferðum til Íslands. „Ánægjulegt er að sjá að svo virðist sem áhugi Breta á Íslandi fari síst dvínandi þrátt fyrir gengisbreytingar.“

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV