Barnabarn fyrrverandi einræðisherra í fangelsi

11.07.2017 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Ermer Hoxha, barnabarn Envers Hoxha, einræðisherra í Albaníu í tæpa fjóra áratugi, var í dag dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir kókaínsmygl. Átta til viðbótar fengu fangelsisdóma næstu tíu til þrettán ár fyrir að hafa smyglað efnunum frá Suður-Ameríku til landa í Vestur-Evrópu.

Níumenningarnir voru handteknir í Albaníu í janúar 2015. Lögregla lagði hald á 120 kíló af kókaíni og nokkuð af vopnum í híbýlum þeirra í grennd við höfuðborgina Tírana.

Ermer Hoxha er 42 ára. Hann er elsta barnabarn einræðisherrans fyrrverandi, sem stýrði Albaníu með harðri hendi frá 1944 til 1985 þegar hann féll frá. Fimm árum síðar var Ramez Alia, arftaka hans í Kommúnistaflokki landsins, steypt af stóli.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV