Bannað að lífláta grunaðan indverskan njósnara

19.05.2017 - 03:14
Erlent · Asía · Indland · Pakistan
Indians holds posters of Indian naval officer Kulbhushan Jadhav and lights fire crackers as they celebrate the International Court of Justice order on Jadhav, in Ahmadabad, India, Thursday, May 18, 2017. The U.N. court on Thursday ordered Pakistan not to
Niðurstöðu Alþjóðadómstólsins var ákaft fagnað í Indlandi. Þar héldu menn á lofti myndum af Kulbushan Jadhav og sprengdu flugelda.  Mynd: AP Images
Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur bannað Pakistönum að lífláta indverskan ríkisborgara sem dæmdur var til dauða fyrir njósnir þar í landi. Dómarar í Haag vilja leggjast yfir áfrýjun frá indverskum yfirvöldum áður en dauðadómnum yfir Kulbhusan Jadhav, fyrrverandi sjóðliðsforingja í indverska hernum, verður framfylgt.

Pakistönsk yfirvöld tilkynntu um það í apríl að hinn 46 ára gamli Jadhav hefði verið dæmdur til dauða fyrir að aðstoða uppreisnarmenn í Balúkistan á landamærum Pakistans og Írans. Dómurinn byggði á myndbandsupptöku þar sem Jadhav játar að vera liðsmaður indversku leyniþjónustunnar og að hafa stutt við glæpsamlegar aðgerðir vígasveita í Balúkistan þar sem pakistanskir ríkisborgarar hafi fallið og verið limlestir. The Guardian greinir frá þessu.

Öryggisráðinu að mæta ef úrskurðurinn er hunsaður

Indversk yfirvöld fullyrtu frammi fyrir Alþjóðadómstólnum í vikunni að játningin hefði verið fengin fram með harðræði og að pakistanskir leyniþjónustumenn hafi rænt Jadhav frá Íran, þar sem hann hafi rekið fyrirtæki. Indverjar segja jafnframt að Jadhav hafi verið neitað um að hitta ræðismann, sem sé brot á alþjóðalögum. Pakistanar segja á móti að málið varði þjóðaröryggishagsmuni og sé þar með utan lögsögu Alþjóðadómstólsins.

Dómstóllinn var ósammála því og úrskurðaði að hann hefði vald til að blanda sér í málið, Jadhav hefði verið meinað um að hitta ræðismann og að fresta bæri aftökunni þar til áfrýjunin hefði verið tekin til skoðunar. Ákvörðun dómstólsins er bindandi og verði hún virt að vettugi gæti málið lent á borði Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ein aftaka fyrir njósnir árið 1999

Málið hefur ekki orðið til að bæta erfið samskipti landanna tveggja. Utanríkisráðherra Indlands, Sushma Swaraj, tísti um niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og sagði að ríkisstjórnin mundi velta við hverjum steini í viðleitni sinni til að bjarga lífi Jadhavs.

Pakistanar og Indverjar fangelsa reglulega ríkisborgara hvorir annarra og saka um njósnir. Í október í fyrra sögðu indversk yfirvöld að á milli 2013 og 2016 hefðu 53 verið handteknir þar í landi grunaðir um njósnir fyrir nágrannana í Pakistan. Aftökur eru hins vegar fátíðar og Indverjar halda því raunar fram að þeir hafi aldrei tekið Pakistana af lífi fyrir njósnir. Pakistanar líflétu aftur á móti indverskan ríkisborgara, Skeikh Shamim, árið 1999, tíu árum eftir að hann var handtekinn grunaður um að halda þar uppi njósnum.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV