Banna sölu og notkun á plastpokum

28.08.2017 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bann við burðarplastpokum í verslunum hefur tekið gildi í Kenía. Ástæðan er að alvarleg plastmengun ógnar nú náttúru og lífríki landsins. Hörð viðurlög liggja við því að brjóta bannið. Frá og með deginum í dag getur hver sá sem staðinn verður að því að selja, framleiða eða nota burðarplastpoka átt á hættu sekt allt að 38 þúsund dollara eða allt að fjögurra ára fangelsi.

Talið er að í hverjum mánuði hafi íbúar Kenía notað 24 milljónir plastpoka undir verslunarvarning. Ferðamönnum sem koma með plastpoka úr fríhöfnum verður gert að skilja plastpokana eftir á flugvellinum. Framleiðendur plastpoka segja að með banninu tapist 80 þúsund störf. Bann við burðarpokum úr plasti hefur þegar verið sett í nokkrum öðrum löndum í Afríku, meðal annars Suður-Afríku, Rúanda og Erítreu.

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV