Bandaríkin vilja sanngjarnari samninga

19.03.2017 - 00:27
epaselect epa05854363 Members of G20 sitting in the Convention Center during the G20 Finance Ministers and Central Bank Governors Meeting at the Kurhaus in Baden Baden, Germany, 17 March 2017. The meeting of G20 Finance Ministers and Central Bank
Frá fundi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra G20 ríkja í dag.  Mynd: EPA  -  EPA POOL
Bandaríkin verða sett í fyrsta sæti og þeir viðskiptasamningar sem fyrir liggja verða endurskoðaðir af núverandi stjórnvöldum. Þetta ítrekaði fjármálaráðherra Bandaríkjanna á fundi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra G20 ríkja í Þýskalandi í kvöld.

New York Times hefur eftir einum fundargesta að Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafa byrjað fund ráðherranna á því að segja að viðskiptareglur væru ósanngjarnar gagnvart Bandaríkjunum. Hann sagði á blaðamannafundi í dag að ráðherrunum hafi þótt mikilvægt að sameiginleg yfirlýsing þeirra endurspeglaði það sem fram fór á fundinum. Fyrri yfirlýsingar séu óviðkomandi. 

Sameiginleg yfirlýsing ráðherranna var nokkuð frábrugðin fyrri yfirlýsingum. Vissulega var minnst á að milliríkjaviðskipti væru góð, en hugtök á borð við opin viðskipti sjást hvergi. Þá forðuðust ráðherrarnir að fordæma einangrunarstefnu, líkt og gert hefur verið undanfarna áratugi. Loforð um að virða loftslagssáttmálann sem var undirritaður í París var tekið úr yfirlýsingunni að beiðni Bandaríkjanna.

Margt ávannst á fundinum

Mnuchin sagði fjölmiðla vera að gera of mikið úr því sem stendur í yfirlýsingunni. Viðræðurnar í Baden Baden hafi verið viðkunnalegar og margt hafi áunnist. Hann sagði Bandaríkjastjórn trúa á frjáls viðskipti, en það verði að endurskoða nokkra samninga. Jafnvægi verði að ríkja milli samningsaðila.

Innan við ár er síðan Evrópusambandið vonaðist til þess að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Síðan þá hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, dregið Bandaríkin úr TPP viðskiptasamningi Kyrrahafsríkja, lofað að endursemja um fríverslunarsamning Norður-Ameríkuríkja, NAFTA, og gagnrýnt þýska bílaframleiðandann BMW fyrir að reisa verksmiðju í Mexíkó.

Leggst þungt á Þjóðverja

Hugmyndir Trumps um að leggja refsiskatt á innflutning til Bandaríkjanna er sérstakt áhyggjuefni fyrir Þjóðverja. Útflutningur Þýskalands til Bandaríkjanna nemur 107 milljörðum evra á ári, jafnvirði tæplega 12.500 milljarða króna, en Þjóðverjar flytja inn bandarískar vörur að andvirði 58 milljarða evra. Stjórn Trumps hefur notað viðskiptaójöfnuðinn til þess að ráðast að Þjóðverjum. Hún sakar þá um að eiga við gengi evrunnar og vill Bandaríkjastjórn semja beint við stjórnvöld í Berlín. Það verður þó að teljast ólíklegt þar sem slíkir samningar fara í gegnum Evrópusambandið og höfuðstöðvar þeirra í Brussel.

Mnuchin segir Bandaríkin vilja stunda milliríkjaviðskipti áfram. Jafna verði viðskiptin út þannig að það komi betur út fyrir hinn almenna Bandaríkjamann, fyrirtækin í landinu og fyrir bæði viðskiptaríki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV