Baldur varð aflvana á leið til Eyja

19.05.2017 - 14:21
Mynd með færslu
Baldur mátti ekki sigla til Þorlákshafnar og það má norska ferjan Röst ekki heldur.  Mynd: Sighvatur Jónsson  -  RÚV
Ferjan Baldur missti afl þegar hún var á leið frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja upp úr hádegi í dag. Bilunin varð, að talið er, í framhaldi af því að óhreinindi komust í kælikerfi skipsins sem olli því að vél þess hitnaði á leiðinni til Landeyjahafnar.

Gunnlaugur Grettisson, forstöðumaður ferjudeildar Eimskips, segir að áhöfn Baldurs hafi orðið þess vör þegar skipið sigldi til Landeyjahafnar á tólfta tímanum að vélin hitnaði meira en eðlilegt gat talist. Menn hófust því handa við að komast að því hvað væri að. Sú athugun leiddi í ljós að óhreinindi hefðu komist í kælikerfið, sennilega þegar tekinn var sjór inn á ferjuna í Vestmannaeyjum. Hann er notaður við kælinguna. Nú virðist hins vegar sandur eða drulla af hafsbotni hafa fylgt með og orðið til þess að kælikerfið virkaði ekki sem skyldi. Gert var við þetta í Landeyjahöfn og haldið af stað til Vestmannaeyja.

Ferjan missti afl þegar hún var komin áleiðis til Eyja. Svo virðist sem mistök hafi verið gerð við frágang eftir viðgerðina í Landeyjahöfn. Lóðs Vestmannaeyjahafnar var við dýpismælingar í Landeyjahöfn og var þegar kallað eftir aðstoð hans þegar Baldur missti afl. Áhöfnin var þó búin að koma vélinni í lag þegar lóðsinn kom á vettvang og gat siglt undir eigin vélarafli til Vestmannaeyja. 

„Þetta fór allt vel en það er aldrei gott þegar skip missir afl," segir Gunnlaugur. Hann segir að þetta hafi verið mjög óþægileg staða en öflug áhöfn hafi leyst vandann og komið vélinni í gang. 

Ferðum Baldurs seinkar nokkuð í dag vegna bilunarinnar en Gunnlaugur segir að menn reyni að vinna upp tapaðan tíma eftir því sem líður á daginn.

Vefurinn Eyjar.net greindi fyrst frá biluninni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV