Bærinn keypti húsið en frestar að rífa það

11.07.2017 - 10:01
Akureyrarbær keypti hús sem stendur á íþróttasvæði Þórs árið 2008 og til stóð að rífa það. Nú er hins vegar ekki á döfinni að rífa það strax, heldur flytur níu manna flóttafjölskylda þar inn um mánaðamótin. Í yfirlýsingu frá Akureyrarbæ segir að áfram standi til að rífa húsið, það sé hluti af langtíma markmiði. Fyrrum eigandi hússins segir að sveitarfélaginu hafi tekist að taka af þeim heimili þeirra með löglegum hætti.

Níels Karlsson, fyrrverandi eigandi og íbúi í Steinnesi á Akureyri sagði frá því á Facebook síðu sinni að Akureyrarbær hafi gefið honum og eiginkonu hans Jóhönnu tvo kosti, að selja bænum húsið eða að sveitarfélagið tæki það eignarnámi. Ástæðan var sú að samkvæmt aðalskipulagi átti að rífa húsið því það væri inni á íþróttasvæði Þórs. 

Óskuðu eftir áframhaldandi leigu

Þeim hjónum var þetta þvert um geð enda byggðu þau húsið sjálf fyrir 30 árum þegar íþróttasvæðið var lítill malarvöllur í góðri fjarlægð frá húsinu. Steinnes var engu að síður selt Akureyrarbæ árið 2008 en Níels og Jóhanna leigðu það fram til síðustu mánaðamóta. Þau óskuðu eftir áframhaldandi leigu á húsnæðinu en samningar milli þeirra og sveitarfélagsins tókust ekki.

Flytja inn um mánaðamótin

Í kvöldfréttum sjónvarps í gær var greint frá því að búið væri að ákveða að nýta húsið. „Bærinn á þetta hús og hefur tekið ákvörðun um að nýta það fyrir flóttamenn sem koma frá Sýrlandi og þeir koma til með að fara inn í húsnæðið væntanlega um mánaðamótin,“ segir Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar.

Akureyrarbær sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar fréttaflutnings af málinu þar sem áhersla er lögð á að bærinn hafi engan hag af því að eignast húsið, annan en að geta byggt upp íþróttasvæðið í kringum það. 

Fyrrum íbúar hússins sögðu í fyrrnefndum pistli á Facebook að þeim liði eins og þau hefðu lent í höndum þjófa en eru nú flutt til Hafnarfjarðar.

Mynd með færslu
Vigdís Diljá Óskarsdóttir
Fréttastofa RÚV