Bæklunarlæknir metur líkamlegt ástand Olsens

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómkvöddum bæklunarlækni í máli Birnu Brjánsdóttur er ætlað að svara spurningum er varða líkamlegt ástand Thomasar Möller Olsen, sem er ákærður fyrir morðið á Birnu. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari. Samkvæmt heimildum fréttastofu fer verjandi Olsens fram á að fá símagögn frá morgninum sem Birna hvarf frá öðrum en Olsen.

Olsen er ákærður fyrir að hafa veist að Birnu með ofbeldi í Kia Rio bifreið sem hann var með á leigu, og varpað henni í sjó eða vatn nærri Selvogsvita, með þeim afleiðingum að hún drukknaði. 

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að verjandi Olsens ætli að reyna að sýna fram á að Olsen hafi ekki verið líkamlega fær um þennan verknað. Verjandinn, Páll Rúnar M. Kristjánsson, vildi ekki staðfesta þetta í samtali við fréttastofu í dag. 

Fær símagögn annarra en Olsens

Við fyrirtöku málsins hjá héraðsdómi Reykjaness í gær óskaði verjandinn eftir að kvaddir yrðu til bæklunarlæknir og réttarmeinafræðingur. Þá fór hann fram á að fá viðbótar símagögn vegna málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru það símagögn annarra en ákærða frá morgninum sem Birna hvarf. 

Næsta fyrirtaka verður á þriðjudag. Til stendur að leggja fram símagögnin þá. Dómkvaddur réttarmeinafræðingur verður fenginn erlendis frá, og óvíst hvenær hann kemur fyrir dóminn.