Bæði hressandi og hjartatosandi

Elízu Newman
 · 
Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Straumhvörf
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Bæði hressandi og hjartatosandi

Elízu Newman
 · 
Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Straumhvörf
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
03.02.2017 - 11:10.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Straumhvörf er fjórða sólóplata Elízu Newman, þar sem saman fara orkuríkir, grípandi sprettir en einnig melankólískar, hjartatosandi ballöður. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Elíza er eitthvað svo sátt í eigin skinni á þessari plötu. Eitthvað æðruleysi stýrir málum, og þó að allt tilfinningarófið sé undir (gleði, sorg, flipp og efasemdir – allt í einum graut) er rauði þráðurinn samt öryggi og rósemd. Platan er líka vel „íslensk“ og heimakær, tilfinning sem maður fær bæði við að velta umslaginu í höndum sér og hlusta á lagasafnið. Það er ekkert verið að reyna að slá í gegn, það er ekkert verið að sýnast, öðru nær þá virðist tónlistin þjóna nokkur konar heilunartilgangi, hún er gerð fyrst og síðast hennar vegna og það skilar sér ávallt. Lífinu og ýmsum hliðum þess er velt upp í gegnum tóna sem texta og það er ekki annað hægt en að sperra upp eyrun.

Kostir

Platan varð til á u.þ.b. þremur árum og þessir kostir hennar sem ég lýsi liggja m.a. í því að þetta er alvöru heimabrugg, Elíza og Gísli Kjaran Kristjánsson tóku plötuna upp í sameiningu þar sem þau búa í Höfnum á Reykjanesi. Elíza bjó lengi vel erlendis en Íslendingurinn hefur verið að sökkva inn undanfarin ár og tónninn að því leytinu til sleginn á plötunni Heimþrá (2012). Elíza hafði þá sjálf orð á því tilgerðarleysi sem einkennir plötuna í spjalli við albumm.is: „Hún er full af lífi, svolítið af fjöri og svo smá angurværð líka. Við reyndum að hafa gaman af þessu og vorum ekkert að pæla í hvað er töff eða vinsælt eða útvarpsvænt bara það sem virkar fyrir lögin!“

Og þannig rúllar platan, Elíza leyfir alls kyns tilfinningum að streyma upp og skiptast á gáskafull, orkurík lög og harmrænar ballöður. Platan fer upp og niður – eins og lífið sjálft. Textarnir eru einlægir, en líka fyndnir og grallarakenndir – líkt og söngkonan. Þessar sveiflur eru allar mjög eðlilegar í framvindunni. Elíza leggur t.d. sjálfa sig og sinn persónuleika (einn hluta hans a.m.k.) á borðið í hinu yndislega „Skýjaborg“ og segir „Stoppaðu mig áður en mér tekst að reisa skýjaborg/stoppaðu mig áður en ég les á milli lína...“. Flestir ættu að geta tengt við þessar línur. Það er aldrei einfalt, þetta blessaða líf.  „Svartir klettar“ og „Yfir strikið“ eru í svipuðum gír, fallegar og hægstreymar smíðar. Á hinn bóginn erum við svo með hið stórgóða upphafslag, „Af sem áður var“, upplyftandi rokkari og líkt er með „Fagurgalinn“, stórskemmtilegt lag með glúrinni uppbyggingu. Að lokum vil ég nefna sönginn sem er frábær; það er gefið í með glæsibrag en einnig hvíslað á angurværan máta. Eins og með annað hér fáum við allan skalann og það virkar.

Rétt í restina

Titill lagsins „Ég leitaði langt yfir skammt“, segir ýmislegt um þetta verk og andann sem stýrir því. Má ég gerast ljóðrænn, svona rétt í restina, og segja ykkur frá því að það sem maður er að leita að, oft í dauðans angist, er iðulega fyrir framan nefið á manni. Mér sýnist og heyrist að Elíza vinkona mín búi yfir þessum vísdómi sömuleiðis.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Elíza Newman - Straumhvörf

Tónlist

Einlæg og tilfinningahlaðin – frábær plata

Tónlist

Systurnar, sorgin og sáttin

Tónlist

Einlægt og heiðarlegt verk