Bæði eigna sér heiður af ókeypis skólagögnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafnarfjarðarkaupstaður bættist á dögunum í hóp þeirra sveitarfélaga sem ætla að útvega grunnskólanemendum ókeypis ritföng. Tillaga þessa efnis var samþykkt í bæjarráði en þá brá svo við að bæði meirihluti og minnihluti töldu sér hugmyndina til tekna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna í bæjarráði fögnuðu því að tillaga sem minnihlutinn hefði ítrekað lagt fram hefði loks hlotið hljómgrunn og verið samþykkt í bæjarráði. Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins, sem standa að meirihluta í bæjarstjórn, svöruðu að bragði að það væri ekki tillaga minnihlutans sem þarna hefði verið samþykkt. „Sú tillaga gekk út á að ritfangakaup féllu niður frá og með 2018. Nú er lagt til og samþykkt hér að gera betur og hefja þetta verkefni strax í haust.“

Skólar Hafnarfjarðarbæjar eiga nú að útvega nemendum ritföng og stílabækur þeim að kostnaðarlausu. Kostnaður er metinn um 20 milljónir króna. Tillögur um ókeypis námsgögn hafa verið samþykktar í um þriðjungi sveitarfélaga landsins. Misjafnt er hvað er innifalið í námsgögnunum, hvort það séu ritföng og stílabækur eða eitthvað meira

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV