Átta sem mæta Íslandi heimsmeistarar 2013

12.01.2017 - 10:23
Mynd með færslu
Spánverjar fagna heimsmeistaratitlinum á heimavelli 2013.  Mynd: eurohandball
Ísland hefur leik í kvöld á heimsmeistaramóti karla í handbolta í kvöld og er óhætt að segja að fyrsti andstæðingur liðsins sé öflugur. Spánn spilaði til úrslita á EM í Póllandi í janúar þar sem liðið tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitaleik en gífurleg reynsla er innan spænska hópsins.

Helmingur hópsins varð heimsmeistari á heimavelli

Sem dæmi um það má nefna að átta af þeim leikmönnum sem skipa HM-hóp Spánverja í Frakklandi urðu heimsmeistarar á heimavelli fyrir fjórum árum eftir stórsigur á Danmörku, 35-19, í úrslitaleik HM 2013. 

Markvörðurinn Arpad Sterbik auk Jorge Maqueda, Victor Tomás, Julen Aguinagalde, Joan Canellas, Viran Morros, Valero Rivera og Gedeón Guardiola urðu allir heimsmeistarar. Þetta eru allt heimsklassa leikmenn og þá eru ótaldir Raúl Entrerríos og Cristian Ugalde sem gátu ekki tekið þátt í HM 2013. 

Hópurinn hefur spilað afar lengi saman og leikmenn gjörþekkja hvern annan. Síðan hafa öflugir yngri leikmenn á borð við Alex Dujshebaev, Juan del Arco og markvörðinn Gonzalo Pérez de Vargas bæst í hópinn. Dujshebaev er yngsti leikmaðurinn en hann er þó orðinn 24 ára gamall og því alls enginn nýgræðingur enda á hann 25 landsleiki að baki fyrir Spán. Arpad Sterbik er 37 ára og elsti leikmaður hópsins en flestir leikmenn Spánar eru á besta aldri og hátindi ferilsins. 

Fimm frá Barcelona 

Það er ekki nóg með að landsliðsmenn Spánar séu þrautreyndir heldur koma fimm leikmenn úr herbúðum stórliðs Barcelona í heimalandinu. Þeir þekkjast því enn betur innbyrðis. Aðrir leikmenn hópsins spila svo erlendis, flestir með evrópskum stórliðum á borð við Evrópumeistara Vive Targi Kielce frá Póllandi, RK Vardar í Makedóníu, Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi eða ungversku félögin MVM Veszprém og Pick Szeged.

Spánn í undanúrslit á EM og HM frá 2011

Heimsmeistaratitillinn sem Spánverjar unnu í Palau Sant Jordi-höllinni í Barcelona 2013 var engin tilviljun. Raunar er árangur Spánverja á stórmótum síðustu sex ár, að Ólympíuleikum undanskildum, magnaður. Spánn hefur spilað að minnsta kosti til undanúrslita á hverju einasta Evrópumóti og heimsmeistaramóti frá árinu 2011: 

  • HM í Svíþjóð 2011 - BRONS, tap gegn Danmörku í undanúrslitum
  • EM í Serbíu 2012 - 4. sæti, tap gegn Danmörku í undanúrslitum
  • HM á Spáni 2013 - GULL, sigur á Danmörku í úrslitaleik
  • EM í Danmörku 2014 - BRONS, tap gegn Frakklandi í undanúrslitum
  • HM í Katar 2015 - 4. sæti, tap gegn Frakklandi í undanúrslitum
  • EM í Póllandi 2016 - SILFUR, tap gegn Þýskalandi í úrslitaleik

Það er því alveg ljóst verkefni íslenska liðsins í kvöld verður snúið en fjórir leikmenn Íslands spila á sínu fyrsta stórmóti í Frakklandi.

Flautað verður til leiks í höllinni í Metz klukkan 19:45 í kvöld en útsending á RÚV hefst klukkan 19:25 með upphitun. Nú magnast spennan!

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður