Átta kynferðisbrot til rannsóknar

09.08.2017 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Átta kynferðisbrot eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmanneyjum, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu en öll voru brotin framin í liðinni viku. Fimm þeirra tengjast útihátíðum, fjögur í Vestmannaeyjum og eitt á Flúðum.

Fimm hafa leitað á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis um og eftir verslunarmannahelgina. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttökunnar, segist vita af átta brotum og þróunin hafi verið sú að þolendum, sem leiti aðstoðar á neyðarmóttöku, fjölgi þegar líður á vikuna.

Fjögur mál eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum en grunur leikur á að brotin hafi öll verið framin um helgina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurlandi eru þrjú kynferðisbrot til rannsóknar. Þar af er eitt frá því á þriðjudaginn í síðustu viku. Þá er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með eitt kynferðisbrot til rannsóknar en talið er að brotið hafi verið framið um helgina.