Átök kynslóða eru hluti af sögunni

02.05.2017 - 15:44
„Þetta er gömul saga og ný,“ segir listfræðingurinn Halldór Björn Runólfsson um átökin á milli FÍM og SÚM í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, sem hann fjallaði um í hádegisfyrirlestri í Safnahúsinu í gær.

 „Þegar koma svona nýjar listbylgjur þá hafa þær tilhneigingu til þess að gera skurk og oft á tíðum er þá ráðist gegn ríkjandi fyrirkomulagi.“ Félag íslenskra myndlistarmanna var þá í forsvari fyrir hið ríkjandi fyrirkomulag og SÚM - sem samkvæmt SÚM-urum var bara SÚM - hina nýju róttæku listbylgju.  

Halldór vísar í blaðagrein sem birt var í september árið 1969, en þar stóð: 

„Það er víst ekki farið framhjá neinum, að hingað til staðarins er komin foksill stelpa frá Róm, og þau undur hafa skeð að Þjóðviljinn hefur séð ástæðu til að birta myndlistarfréttir í ramma á forsíðu…. Í sýningarsamtökum ungra listamanna, SÚM, eru nokkrir menn allvel og sumir ágætlega af guði gerðir, þótt þeir séu illa haldnir af meinlokum og enn verr af þekkingarskorti, að undanskildum spámanninum diter rot. Þetta stendur til bóta því að hæfileikar brjótast fram úr bæði meinlokum og fáfræði. Það eitt virðist nægja að lyfta kaffibolla á Mokka, lýsa því yfir að maður sé genginn í SÚM, og amlóðinn er óðar orðinn listamaður á heimsmælikvarða.“

Halldór segir að Róska hafi ekki vandað mönnum kveðjurnar heldur. „Hún sagði að þetta væru bara gamlir fauskar sem væru þarna í samtökunum [FÍM] og það væri liðin tíð að menn gætu verið að dúlla sér í einhverju abstrakti sem enginn maður hafði lengur áhuga á og heimurinn væri að fara framhjá þessu fólki. Það ætti að líta út fyrir fílabeinsturninn og sjá hvað væri að gerast.“

Halldór segir að á þessum tíma hafi enginn áhugi verið á því að brúa bil milli kynslóða listamanna, en það sé sem betur fer aðeins að breytast. Skemmst er að minnast opnunarsýningar Kling & Bang í Marshall-húsinu þar sem nýútskrifaðir myndlistamenn sýndu verk sín, en á neðri hæðinni var einmitt hægt að líta verk eins af SÚM-urunum, Ólafs Lárussonar. 

„Honum hefði aldrei dottið í hug að ganga í slagsmál við þetta fólk,“ segir Halldór um Ólaf og félagsskapinn á efri hæðinni. „Ég held að hann hafi lært sína góðu lexíu og ég held að menn hafi áttað sig mjög vel á því að það er engin kyrrstaða. Þú ert aldrei komin/n á endapunkt. Það er alltaf eitthvað sem tekur við.“

Hvað má læra af átökunum milli FÍM og SÚM haustið 1969? nefndist fyrirlestur Halldórs Björns sem hann flutti í Safnahúsinu en hann er sá síðasti í fyrirlestrarröðinni Átakalínur, sem Listfræðafélagið hefur staðið fyrir nú í vor. 

Ljósmynd: Dagur Gunnarsson.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi