Átján lögreglumenn ákærðir

11.07.2017 - 22:43
Mynd með færslu
 Mynd: Dick Elbers  -  Wikimedia Commons
Saksóknarar í Portúgal ákærðu í dag átján lögreglumenn fyrir að hafa handtekið og pyntað sex unga menn af afrískum uppruna í febrúar fyrir tveimur árum. Allir unnu lögreglumennirnir á sömu lögreglustöðinni í bænum Alfragide norðvestan við höfuðborgina Lissabon.

Upphaflega handtók lögreglan  einn mannanna og síðan fimm vini hans sem fóru á lögreglustöðina til að biðja lögreglumennina að sleppa honum. Að sögn portúgalska dagblaðsins Diario de Noticias voru sexmenningarnir lítillækkaðir og pyntaðir andlega og líkamlega þá tvo sólarhringa sem þeim var haldið á lögreglustöðinni. Að sögn blaðsins var framkoma lögreglumannanna lituð af kynþáttahatri og andúð á útlendingum.

Allir voru sexmenningarnir frá hverfi í bænum þar sem innflytjendur frá Grænhöfðaeyjum eru fjölmennir. Þær eru fyrrverandi nýlenda Portúgals. Við rannsókn málsins sögðu lögreglumennirnir að tugir ungra manna hefðu gert innrás á lögreglustöðina til þess að frelsa vin sinn. Piltarnir sem voru pyntaðir og fleiri vitni að atburðunum báru þær upplýsingar til bana. Málið vakti mikla athygli í Portúgal. Hópar sem berjast gegn kynþáttamismunun mótmæltu framkomu lögreglunnar.
 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV