Ástralar greiða flóttafólki bætur

14.06.2017 - 05:24
Mynd með færslu
Frá flóttamannabúðum Ástrala á Nárú  Mynd: AP
Ríkisstjórn Ástralíu hefur fallist á að greiða 53 milljónir bandaríkjadala í bætur til flóttafólks sem haldið var á Papúa nýju Gíneu. Yfirvöld hafna því að hafa brotið á flóttafólkinu en segja sáttargreiðslurnar skynsamlega niðurstöðu.

Ástralar hafa síðustu ár snúið flóttafólki og hælisleitendum, sem koma með bátum til Ástralíu, beint til Papúa nýju Gíneu eða eyríkisins Nauru. 
1.905 einstaklingar kröfðust þess að þeim yrði bætt tjón sem þeir hefðu orðið fyrir þegar þeir voru í haldi á eyjunni Manus á tímabilinu frá 2012 til 2016.

Áströlsk yfirvöld hafa ætíð hafnað því að hafa brotið á flóttafólkinu en segja sátt í málinu skynsamlega niðurstöðu. Fyrirtaka átti að hefjast fyrir áströlskum dómstólum í dag en skömmu áður en málið var tekið fyrir barst sáttartillagan. Ríkið býðst til að greiða 53 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði nærri fimm og hálfs milljarðs íslenskra króna, auk 20 milljóna til viðbótar í málskostnað.

Stefna Ástrala hefur verið gagnrýnd harðlega, bæði heima fyrir en einnig af alþjóðasamfélaginu, meðal annars af Sameinuðu þjóðunum. Yfirvöld segja þetta gert til að reyna að koma í veg fyrir að fólk leggi upp í hættuför á vanbúnum bátum og það virðist hafa gengið eftir. Greint var frá því í gær að eitt þúsund dagar væru liðnir frá því smyglarar reyndu síðast að koma hópi flóttafólks til Ástralíu. Mörg hundruð flóttamenn eru þó enn á eyjunni Manus en þar er vandinn aðkallandi því búðunum verður lokað í október og ekkert bólar framtíðarlausn.  

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV