Aron heldur heim á leið - ekki með á HM

11.01.2017 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, er á leið heim frá Frakklandi og verður ekkert með á heimsmeistaramótinu sem hefst í dag.

Aron hefur átt við þrálát meiðsli í mjöðm og nára að stríða. Hann lék ekkert með íslenska liðinu á æfingamótinu í Danmörku um liðna helgi en kom til móts við hópinn á mánudag.

Hann æfði í gær og fór svo í ítarlega skoðun hjá læknateymi íslenska liðsins í morgun.

Niðurstaðan úr þeirri skoðun er að Aron sé ekki leikfær og því verður hann ekki með á HM.

Snúin staða en ekki vonlaus

Fjarvera Arons á HM er áfall fyrir íslenska liðið því hann er einn albesti handboltamaður heims. 

Það er þó bót í máli að Geir Sveinsson og aðstoðarþjálfarar hans hafa haft drjúgan tíma til að búa sig undir þessa stöðu. Aron hefur lítið sem ekkert getað æft með íslenska liðinu í undirbúningnum og aðrir menn hafa fyllt hans skarð.

Sömu menn þurfa nú að fylla skarðið á heimsmeistaramótinu. 

 

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður