App fyrir geðhvarfasjúka í þróun

31.07.2017 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels  -  Pe
Rannsóknarhópur á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg gerir nú tilraunir með smáforrit eða app sem fylgist með ástandi geðhvarfasjúklinga. Markmiðið er að sjúklingurinn geti áttað sig fyrr á því þegar sjúkdómurinn ágerist.

Appið greinir breytingu á lífsmynstri

Sænska ríkisútvarpið - SVT- segir að tíu sjálfboðaliðar með geðhvarfasýki hafi tekið þátt í tilrauninni síðan í mars. Þeir þurfa í sjálfu sér ekki að gera neitt, en appið í símanum þeirra metur eða mælir hversu mikið síminn er notaður, hreyfingu og samskipti. Ef breytingar verða á lífsmynstri viðkomandi þá gæti það þýtt að jafnvægið sé að raskast og að einkenni sjúkdómsins séu að færast í aukana.

Sjö vísindamenn á Sahlgrenska eru í rannsóknarhópnum, þ.á.m. læknar, sálfræðingur og lögfræðingur. Vonir standa til að með appinu sé hægt að grípa fyrr inn í atburðarásina þegar sjúklingur er á leið í maníu, bæta líðan sjúklinga og fækka innlögnum. Ef allt gengur að óskum yrði ávinningurinn mikill bæði fyrir sjúklinginn og samfélagið.

Sjúklingurinn áttar sig ekki á breytingu

Magnus Blom læknir og frumkvöðull að rannsókninni segir að samtök geðhvarfasjúkra hafi tekið mjög vel í tilraunina og hugmyndina að smáforritinu. Steinn Steingrímsson geðlæknir á Sahlgrenska sjúkrahúsinu segir við SVT að geðhvarfasjúklingar geri sér sjaldnast grein fyrir því sjálfir þegar sjúkdómurinn ágerist og máníuástand nálgist. Þess vegna sé appið bráðnauðsynlegt hjálpartæki.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV