Annan hitti Assad

10.03.2012 - 11:20
Mynd með færslu
Kofi Annan, sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins, kom til Sýrlands í morgun og átti fund með Bashar al-Assad, forseta landsins. Nokkrum klukkustundum áður en fundurinn hófst, gerði Sýrlandsher stórskotaliðsárás á mótmælendur í norðvestur-hluta landsins.

Fyrir fundinn í morgun sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, að Annan myndi fara fram á það við stjórnarherinn og stjórnarandstæðinga að þeir legðu niður vopn þannig að hægt væri að koma sjúkum og særðum í landinu til hjálpar. Valerie Amos, mannúðarmálastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði einnig að nokkrum árangri hefði verið náð í að flytja hjálpargöng til fólks en meira þyrfti að gera í þeim efnum. Þegar Annan kom til Damaskus í morgun átti hann fyrst fund með Faisal Mekdad, utanríkisráðherra. Síðan hitti hann Assad forseta. Í yfirlýsingu sem lesin var upp í sýrlenska sjónvarpinu eftir fund þeirra sagði að hann hafi verið á jákvæðum nótum en ekki greint nánar frá því hvað þeim hefði farið í milli.

Örfáum klukkustundum áður en Annan kom til Sýrlands gerðu hersveitir stórskotaliðsárás á borgina Idlib í norðvesturhluta landsins nærri landamærunum að Tyrklandi. Þar hafa verið mikil mótmæli gegn stjórnvöldum. Mannréttindasamtök í Sýrlandi segja að árásirnar á borgina séu þær verstu síðan liðsauki var sendur þangað fyrir helgi. Verið sé að undirbúa landhernað í Idlib. Vitni segja við AP fréttaveituna að íbúar séu að flýja borgina með eigur sínar.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins segir óvíst hvort Annan fái að hitta stjórnarandstæðinga í Sýrlandi. Hann er hins vegar sagður funda síðar með þeim sem hafa flúið land.