Anna Hulda best þriðja árið í röð

15.12.2014 - 20:56
Mynd með færslu
Lyftingasamband Íslands hefur valið Önnu Huldu Ólafsdóttur og Andra Gunnarsson lyftingarfólk ársins 2014. Þá voru Lilja Lind Helgadóttir og Guðmundur Högni Hilmarsson valin ungmenni ársins.

Þriðja árið í röð verður Anna Hulda fyrir valinu sem lyftingakona ársins. Hún er stigahæsta lyftingakonan á árinu með 236,2 Sinclair stig en þeim árangri náði hún þegar hún varð Norðurlandameistari í ólympískum lyftingum í -58 kg flokki kvenna, fyrst íslenskra kvenna. Hún keppti einnig á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum á árinu og endaði í 14. sæti í -63 kg flokki kvenna. Hún setti átta Íslandsmet á árinu, eitt í -63 kg flokki kvenna og sjö í -58 kg flokki kvenna.

--

Þetta er í fyrsta sinn sem Andri hlýtur nafnbótina lyftingarmaður ársins. Andri vann bronsverðlaun í stigakeppninni á Smáþjóðleikunum í ólympískum lyftingum sem fram fóru í San Maríno en þar snaraði hann 143 kg og jafnhenti 170 kg eða samanlagt 313 kg sem gáfu honum 326,8 Sinclair stig.

--

Lilja lind setti á árinu Norðurlandamet unglinga í jafnhendingu fyrst íslenskra kvenna þegar hún lyfti 103 kg upp fyrir haus í +75 kg flokki kvenna og er það þyngsta lyfta sem íslensk kona hefur lyft yfir alla þyngdar- og aldurflokka. Hún setti alls ellefu Íslandsmet í fullorðinsflokki og þrettán met í unglingaflokkum -75 kg og +75 kg og er stigahæsta konan 20 ára og yngri með 216,37 Sinclair stig.

--

Guðmundur Högni vann silfur verðlaun á Norðurlandamóti unglinga í -85 kg flokki þar sem hann háði harða baráttu um gullverðlaun. Hann setti eitt Íslandsmet í fullorðinsflokki á árinu en fjórtán Íslandsmet í -85 kg flokki 20 ára og yngri og er stigahæsti karlinn 20 ára og yngri með 308,6.